136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

247. mál
[15:57]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við mál sem snýr að því að þegar fluttar eru til landsins bifreiðar, sem menga mun minna en þær bifreiðar sem við almennt notum, greiði menn ekki af þeim vörugjöld og virðisaukaskatt. Hér er um að ræða bifreiðar sem stundum ganga undir nafninu tvinnbifreiðar, eins og sagt var í upphafi, þ.e. bifreiðar sem nota rafmagn að verulegu leyti. Hér er einnig um að ræða ökutæki sem valda hverfandi mengun og eru knúin svokölluðum óhefðbundnum orkugjöfum, svo sem rafhreyfli eða vetni. Ákvæðið nær reyndar einnig til metangass og ökutækja sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga.

Hæstv. forseti. Hér er einnig vikið að sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar, en meginefni þessa máls er að hér framlengjum við árlega svokallaða undanþágu í staðinn fyrir að búa til stefnu og setja hana í lög. Ég hef vikið að þessu nokkrum sinnum, hæstv. forseti, þegar þessi mál hafa komið hér til umræðu. Ég hef talið eðlilegt og jákvætt fyrir þjóðfélag okkar að hafa slík ákvæði sem hér eru reglulega framlengd fyrir hver áramót um eitt ár í senn til þess að fjölga hér ökutækjum sem menga minna en venjulegar bifreiðar. Ég hef spurt að því, a.m.k. tvisvar svo ég muni, hvers vegna ríkisstjórnin búi ekki til stefnu um þetta til lengri tíma í stað þess að afgreiða þetta ævinlega með svokölluðu undanþáguákvæði fyrir eitt ár í senn.

Ég held að ég muni rétt, hæstv. forseti, að þessum ábendingum mínum hefur verið tekið jákvætt af viðkomandi ráðherrum. Menn hafa talið að ríkisstjórnin ætti að sjálfsögðu að koma með tillögur um að breyta slíkum lagaákvæðum til framtíðar.

Það er nú svo að venjulegir þingmenn koma yfirleitt engum málum í gegnum þetta Alþingi, það er bara hin leiða regla sem hefur viðgengist. Nú er hér 43 manna þingmeirihluti og það hefur sýnt sig, eins og svo oft áður í meðförum þingsins, að óbreyttir þingmenn koma ákaflega fáum tillögum, hvað þá lagafrumvörpum, hér í gegn, hvað þá ef þeir eru úr stjórnarandstöðunni.

Ég hef borið upp þessa áskorun við stjórnvöld á hverjum tíma þegar þetta undanþáguákvæði hefur verið til umræðu og hvet enn til þess að stjórnvöld í landinu breyti því vinnulagi sínu að afgreiða hér undanþágu til eins árs en ákveða þetta ekki til lengri tíma. Ég get t.d. vel hugsað mér að slík lög verði sett til fimm ára í senn þannig að fólk sem keypti sér slíkt ökutæki gæti séð lengra fram í tímann um hvernig þessum hlutum væri varið.

Einnig má hugsa sér að hafa þetta ákvæði ótímabundið eins og önnur lög, en allt að einu held ég að þetta eigi að fara í annan farveg, hæstv. forseti, en þann að við framlengjum alltaf slíkt ákvæði um eitt ár í senn. Það gæti m.a. orðið til þess að fólk ákvæði frekar að kaupa svona farartæki en ella.

Ég held að það sé einfaldlega jákvætt að við stuðlum að því. Ég kem í þessa umræðu til að vekja athygli á því að æskilegt væri að hæstv. fjármálaráðherra og sennilega umhverfisráðherra ásamt samgönguráðherra kæmu sér niður á það hvernig þau vildu leggja til að þessum málum væri fram haldið til næstu ára og kæmu hér á nýju ári með raunverulegar breytingar í þá veru að slík lagaákvæði, sem við framlengjum hér til bráðabirgða, verði fest í löggjöfina til lengri tíma.

Þetta eru ábendingar mínar í þessu máli, reyndar þær sömu og ég hef oft flutt áður þegar við höfum framlengt þessi ákvæði til eins árs í senn, og ég vona að hinn mikli meiri hluti sem hér ræður störfum þingsins geti nú farið að taka undir þessi sjónarmið og leggja þeim lið í framtíðinni. Nú þegar fjallað er um þetta mál, á auðvitað að setja þessi lög til lengri tíma en eins árs í senn. Ég mælist til að þau sjónarmið verið rædd í viðkomandi nefnd.