136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

247. mál
[16:09]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég vil taka undir orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um nauðsyn þess að vera ekki alltaf að endurnýja frá ári til árs undanþáguheimildir sem þessar, heldur setja heildstæða stefnumörkun til lengri tíma. Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra um að það standi til og að við megum jafnvel eiga von á því að fá slíka stefnumörkun á borð Alþingis eftir áramótin.

Eins mikilvægt og það er að móta skýra stefnu um það að auka hlut vistvænna ökutækja í bílaflotanum okkar er mjög mikilvægt að auka hlut almenningssamgangna í umferðinni, ekki síst við þær aðstæður sem við nú búum við í þeim tilgangi að spara gjaldeyri og spara útgjöld fyrir almenning í landinu sem þarf að fara ferða sinna og mundi gjarnan þiggja að gera það með betri almenningssamgöngum í stað þess að vera alltaf á einkabílnum. Það er ekki nauðsynlegt að fjölga málum á Alþingi til að styrkja almenningssamgöngur. Það er nóg að gera það eins og ég sagði með því að breyta því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ég hef boðað tillögu um en mig langar til að nýta þetta tækifæri og spyrja hæstv. ráðherra beint hvaða rök hnígi að þessum mismun sem hefur verið í þessari undanþágu allt frá árinu 2001 sem er að strætisvagnar sem sinna almenningssamgöngum og eru stærri en fyrir 18 farþega fái ekki endurgreidda 2/3 hluta virðisaukaskatts af nýjum vögnum meðan hópferðabifreiðar aðrar fyrir 18 manns eða fleiri fá það. Eins og ég nefndi áðan munar þetta, á þessu tímabili frá 2000, einhvers staðar á bilinu 100 til 150 millj. kr. sem fyrirtæki í almenningssamgöngum hafa þurft að borga virðisaukaskatt umfram önnur hópferðafyrirtæki. Ég óska eftir rökstuðningi frá ráðherranum fyrir þessu eða, það sem meira er, óska eftir stuðningi hans við það að breyta þessu, grípa nú tækifærið og breyta þessu um leið og við samþykkjum að öðru leyti þetta frumvarp sem hér liggur fyrir og ég hef þegar lýst stuðningi við.