136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

Tryggingastofnun ríkisins.

[13:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta eru ákaflega ófullnægjandi svör. Það er viðurkennt að það sé búið að vera ófremdarástand og það sé ófremdarástand og að ekki sé hægt að ætla fólki að búa við þessar starfsaðstæður en menn vonast samt til að þetta leysist. Það er hægt að breyta þeim lögum sem sett voru og það er ekki það langt gengið í þessu máli að ekki sé auðvelt að snúa til baka.

Í aðalatriðum er búið að ráða einn mann, forstjóra, sem reyndar var ráðinn, eða starf hans a.m.k. auglýst áður en búið var að setja nein lög þar um. Vinnubrögðin öll í þessu máli eru náttúrlega til slíkrar stórskammar að það hálfa væri nóg. Verið er að troða pólitískt fram þessu umdeilda máli og standa í kostnaðarsömum skipulagsbreytingum sem illdeilur eru um í því ástandi sem við erum stödd í núna með samfélag okkar. Það er til háborinnar skammar. Ríkisstjórnin á auðvitað að hætta við þetta, spara þessa peninga og reyna að styðja við bakið á því starfsfólki innan opinberu stjórnsýslunnar sem vinnur mikilvæg verkefni við mjög erfiðar aðstæður. Ég skora því á hæstv. félagsmálaráðherra að gera betur í þessum efnum, taka nú á sig rögg. Nú er hennar tími kominn í vissum skilningi til að taka af skarið í þessum efnum.