136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

Tryggingastofnun ríkisins.

[13:09]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir „í vissum skilningi“. Er hann ekki alveg kominn? Ég vil segja við hv. þingmann að stjórnarflokkarnir hafa náð ákveðnu samkomulagi um Sjúkratryggingastofnun sem nú er orðið að lögum. Þetta var samkomulag milli flokkanna og ég sé enga ástæðu til að ég fari að beita mér fyrir einhverjum breytingum á þeim lögum. Við skulum sjá hvernig úr vinnst að því er það varðar. Ég er þingmanninum hjartanlega sammála um að við verðum að leysa þetta með þeim hætti sem ég sagði áðan, að aðstæður verði viðunandi fyrir starfsfólk, það er það mikilvæga í mínum huga. Þrátt fyrir þessar deilur — ég skal taka undir að þetta séu deilur, þær hafa ekki verið leystar — hefur starfsemin verið viðunandi fyrir alla þjónustu stofnunarinnar. En auðvitað er ekki hægt að búa við þetta til langframa. Við verðum að leysa þetta og ég ítreka að við munum leysa málið (Forseti hringir.) og ná niðurstöðu í það núna á allra næstu dögum.