136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

málefni háskólanema.

[13:13]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Birki J. Jónssyni að það á að tala við námsmenn og ég mun að sjálfsögðu gera það þegar það liggur fyrir hvernig fjárhagsramminn lítur út. Í eðlilegu árferði mundi ég segja að þær tillögur sem við erum að ræða varðandi háskólana og varðandi rannsóknina væru arfavitlausar. Það er að mínu mati það vitlausasta sem menn gera að skera niður allt sem kemur niður á háskólunum, rannsóknunum, vísundunum, nýsköpunarverkefnum og öllu á því sviði. En það er ekki eðlilegt árferði og það verða allir að hagræða. Hér er verið að reyna að láta þær tillögur sem settar eru fram bitna minnst á menntakerfinu og velferðarkerfinu. Ég vil minna á það m.a. af því að við erum að tala um að líta til reynslu annarra þjóða.

Hér á landi var Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svía, og öðruvísi mér áður brá að vitna í formenn sósíaldemókrata í Svíþjóð en svona er nú einu sinni lífið. Reynslan er engu að síður alveg skýr. Svíarnir voru nokkuð fljótir að ná sér út úr erfiðri kreppu. Það gerðu þeir m.a. af því að þeir fóru jafnt yfir, þeir veittu engar undanþágur nema að þeir reyndu að hlífa mennta- og velferðarkerfinu eins og við erum að gera en það var ekki undanskilið. Við erum að gera nákvæmlega það sama og við vonumst til þess að með því munum við verða fljótari að ná okkur út úr þessu erfiða ástandi.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns varðandi Háskóla Íslands. En ég vil líka segja að við erum ekki að skera niður, við erum að fresta framkvæmd rannsóknarsamningsins upp á 650 millj. kr. til síðari tíma. Þó hefur háskólinn í dag einum milljarði meira til rannsókna en hann hafði fyrir einu og hálfu ári síðan. Þetta er erfitt (Forseti hringir.) en ég geri mér engu að síður grein fyrir því að við þurfum að bjóða upp á þessa möguleika. Ég bind vonir (Forseti hringir.) við að hægt verði að leysa úr þessum vanda og þeirri miklu aðsókn sem er inn í háskólana.