136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

málefni háskólanema.

[13:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að það vitlausasta sem hægt er að gera nú á þessum tímum er að skera niður fjármagn til rannsókna og nýsköpunar. Samt er það staðreynd að ríkisstjórnin stendur nú í slíku.

Ég vil líka fagna því að hæstv. ráðherra ætlar sér að hitta forustumenn námsmannahreyfingarinnar, sem eins og ég sagði áðan telur 20 þúsund manns. Mér er það til efs að ef aðilar vinnumarkaðarins hefðu beðið um fund með ríkisstjórninni að þeir hefðu þurft að bíða í rúman mánuð eftir slíkum fundi. Hér er um að ræða gríðarlega stóran hóp fólks sem á í miklum vandræðum.

Þessi hópur fólks hefur líka áhyggjur af því að nú er verið að skera niður framlög til LÍN um einar 1.360 milljónir. Það á reyndar að ganga á eigið fé LÍN með þeim hætti en hvað þýðir það? Vandinn verður tvöfalt stærri á næsta ári en hann er í dag og þá verður trúlega að grípa til harkalegri viðbragða. Ég spyr: (Forseti hringir.) Mega stúdentar eiga von á því á næsta vori að það verði komið til móts við þær kröfur sem þeir hafa gert (Forseti hringir.) um að kjör þeirra verði bætt?