136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

reglur um starfsemi ríkisbankanna.

[13:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna þeim gangi sem er í þessu máli. Það er auðvitað á ábyrgð okkar hér að skapa þessar almennu leikreglur til þess að greiða fyrir því að almenningur hafi forsendur til að taka upplýstar ákvarðanir um hvað sé á seyði í samfélaginu. Við verðum að skapa þessar almennu leikreglur og þær verða að vera ljósar. Þá er jákvætt að heyra að þessari vinnu miðar vel.

Ég fagna líka ábendingu hæstv. ráðherra varðandi starfsemi skiptastjóra. Það er auðvitað ekki eðlilegt að við setjum almennar leikreglur sem tryggi gagnsæi í meðferð eigna fyrirtækja í vandræðum sem gildi um bankana en svo um leið og komið er inn í formlega skiptameðferð sé leyndarhjúpi varpað yfir aðgerðir aðila. Auðvitað verður eitt yfir alla að ganga í þessum efnum.