136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[13:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að fjölyrða um þann vanda sem íslensk þjóð stendur núna frammi fyrir. Í þessari viku höfum við farið í gegnum fjárlögin og eins og þjóðin veit er um að ræða niðurskurð á öllum sviðum, ekki síst í heilbrigðismálum. Því miður er það oft þannig að það bitnar á þeim er síst skyldi.

Við í stjórnarandstöðunni höfum samt furðað okkur á forgangsröðun og í raun algjörum skorti á framtíðarsýn í niðurskurðinum. Eitt lítið dæmi sýnir þetta kannski betur en annað en þetta litla dæmi er reyndar algjört stórmál í mínum huga. Staðreyndir málsins eru þær að við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur verið ákveðið að spara. Það hefur sent heilbrigðisráðuneytinu tillögur sínar þar sem kemur fram að til standi að segja upp eina barna- og unglingageðlækninum á landsbyggðinni, eina unglinga- og barnageðlækninum sem starfar utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Þessi eini læknir var með um þúsund heimsóknir skráðar til sín á síðasta ári svo ekki fer á milli mála að þörf á þjónustu hans er gríðarlega mikil, ekki bara í skólabænum Akureyri heldur miklu víðar á landsbyggðinni.

Þeir sem hafa komið að þessum málum neita í rauninni að trúa að þetta sé staðreynd og að þetta verði niðurstaðan. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra: Er ekki einfaldlega um mistök að ræða? Er ekki mest um vert á tímum sem þessum að við stöndum vörð um þá sem minnst mega sín? Ef geðheilsu barna og ungmenna er ekki sinnt má þá ekki fullyrða (Forseti hringir.) að við munum missa tengsl við grunngildi íslensks samfélags?