136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[13:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi að það vantaði framtíðarsýn í þennan málaflokk. Ég held að ég verði að segja eins og er að ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni. Reyndar held ég að menn sjái ef þeir skoða málin, og flestum hafi verið það ljóst, að það sem hefur kannski vantað í heilbrigðismálin á Íslandi er stefnumótun og það að menn setji sér markmið fram í tímann.

Ljóst er að það eru mjög mörg tækifæri þegar kemur að heilbrigðismálum þrátt fyrir að við förum í gegnum þessi erfiðu mál sem hv. þingmaður nefndi. Við höfum það að markmiði að viðhalda þeirri velferðarþjónustu sem hér er en við verðum að gera það með öðrum hætti og með minni fjármögnun en fram til þessa. Við lítum svo sannarlega til framtíðar og tjöldum ekki til einnar nætur. Þess vegna hefur áherslan á það sem snýr að samdrætti í heilbrigðismálum snúið að því að menn taki fyrst og fremst á rekstrarþáttum. Það er auðvitað hvorki einfalt né auðvelt. Hins vegar er það þess virði því mestar líkur eru á að það komi minna niður á þjónustunni en ef farið væri í aðra hluti, sem eru örugglega einfaldari en geta komið verr niður á fólkinu sem þarf á þjónustunni að halda.

Eins og hv. þingmaður veit hafa forstöðumenn viðkomandi stofnana vald til þess að fara með sína málaflokka og þurfa að útfæra þá hluti. Í þessari stóru þjónustu endar nú fæst af því sem inn kemur á borði ráðherra og það verður að segjast eins og er að ég þekki bara ekki til þessa máls sem þingmaður nefndi. Ég þarf einfaldlega að kynna mér það ef ég á að tjá mig um það.