136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[13:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held nú að ekki hafi skort stefnumótun hingað til í íslensku heilbrigðiskerfi. Þegar við framsóknarmenn skiluðum því af okkur kom það hvað best út í niðurstöðum ríkja OECD. Þar kom fram að það væri í rauninni lofsvert hvernig við Íslendingar hefðum haldið á heilbrigðismálum og ég vona að það verði enn upp á teningnum þegar sjálfstæðismenn skila ráðuneytinu af sér.

Mér þykir reyndar miður að hæstv. ráðherra gat ekki svarað mér um þetta tiltekna mál. Ég vona að hann setji sig vel inn í þetta mál og leiðrétti það sem ég tel að hljóti að vera ekkert annað en mistök. Auðvitað eiga forstöðumenn stofnana að fara með sína málaflokka en það er ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð. Er kannski ekki kominn tími til að við innleiðum það í íslensk stjórnmál að ráðherrar fylgist með undirstofnunum sínum og beri ábyrgð (Forseti hringir.) á því sem þar fer fram?