136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[13:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er mjög mikilvægt að menn beri pólitíska ábyrgð og fylgist með því sem gerist í viðkomandi málaflokki. Ég veit samt ekki alveg hvort það er gerlegt að ráðherra fari yfir hverja einustu undirstofnun og fari yfir það hvað gerist þar frá degi til dags. Ég er ekki viss um að ráðherrar Framsóknarflokksins hafi gert það í sinni tíð. Við erum kannski í þessu tilfelli að tala um heilbrigðisþjónustu sem spannar 100 milljarða og ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt að hafa mál með þeim hætti að ráðherra fari að skipta sér af öllu því sem gerist í þeirri undirstofnun. Hins vegar er algjörlega sjálfsagt og eðlilegt að skoða málin þegar þau koma upp og ég lít á þetta sem vinsamlega ábendingu frá hv. þingmanni og tek því bara vel. Við getum kannski rætt það þegar við erum búin að skoða.