136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

endurskipulagning Fjármálaeftirlitsins.

[13:33]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og skal reyna að svara, a.m.k. hluta af því sem um var spurt.

Við skulum vera sanngjörn þegar við metum, ræðum og gagnrýnum störf stofnana eins og Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og annað. Alþingi fól Fjármálaeftirlitinu gríðarlega mikið hlutverk hér með neyðarlögunum 6. október og gjörbreytti hlutverki Fjármálaeftirlitsins. Það var ekki að ósk þeirra, það var ákvörðun Alþingis. Síðan þá hefur Fjármálaeftirlitið unnið mikið starf og þar hafa margir unnið mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður. Ég staðhæfi hér að það fólk sem þar starfar hefur unnið frábært starf við mjög erfiðar aðstæður og bjargað miklu af því sem bjargað varð.

Hvað varðar skilanefndirnar má kannski fyrst velta fyrir sér hvort þessar aðstæður kalli ekki á það, ekki síður, að við setjum hámarksstærð á endurskoðunarskrifstofur svo þær séu fleiri og fjölbreyttari en núna þegar þær eru fáar og stórar og erfitt að velja þar á milli.

Fjármálaeftirlitið skipaði skilanefndir yfir bönkunum samhliða því að það tók ákvörðun um að fara inn í gömlu bankana. Það var gert á grundvelli ákvæðisins og það þurfti að taka ákvörðun um mönnun skilanefnda á nokkrum klukkustundum þannig að tryggt væri að bankarnir mundu halda áfram rekstri þrátt fyrir stöðu sína. Vegna þeirra sérstöku aðstæðna og til að tryggja sem besta yfirsýn á sem skemmstum tíma þótti rétt á þeim tíma að í nefndirnar yrðu valdir að hluta starfsmenn sem þekktu til starfseminnar og gætu auðveldað vörslu eignasafns og starfsemi þeirra hér innan lands áfram. Meginverkefni nefndanna er að tryggja umsjón með meðferð eigna og hámarka verðmæti eignanna þannig að sem mest fáist út úr uppgjörinu á bönkunum.

Meiri hluti skilanefndamanna er þó jafnan skipaður utanaðkomandi aðilum með reynslu af endurskoðun og lögmennsku. Við val á fólki í skilanefndir var gætt í hvívetna að almennum hæfisreglum sem um þær gilda og skilanefndafólk sérstaklega spurt um hæfi sitt. Ég treysti Fjármálaeftirlitinu fullkomlega til að standa þar vel og heiðarlega að verki og efast ekki eitt augnablik (Forseti hringir.) um að þeir sinni hlutverki sínu með sóma.