136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[14:05]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það var vissulega þannig að umgjörðin um sparisjóðina var með þeim hætti að þar var síður hætta á að þeir sem önnuðust rekstur bankanna færu út í áhættusamar lánveitingar eins og varð í viðskiptabönkunum sem varð þeim svo að falli. Hins vegar varð sú þróun sem hér hefur verið minnst á um að hlutafélagavæða sparisjóðina og var m.a. leidd af Sparisjóði Reykjavíkur og ýmsum sem honum tengdust og þrýstu á breytingar, ekki gæfuspor fyrir sparisjóðina og ég er ekki sammála því að menn eigi að halda áfram á sömu braut og sameina þá fáu sparisjóði sem eftir eru. Gæfan í þessu máli er kannski að þeir fáu sem eftir standa voru þeir sem stóðu utan við sameiningarnar og þessar stóru viðskiptablokkir sem höguðu sér ógætilega á síðustu árum og varð þeim að falli.

Ég held að í þessu máli sé ábyrgð Seðlabankans meiri en hjá mörgum öðrum. Ógæfa Icebank í þessu máli er að Seðlabankinn notaði Icebank til að koma peningum til viðskiptabankanna þriggja, til að koma meiri peningum til þeirra en bankinn mátti lána þeim, sem nam hundruðum milljarða kr. Þarna fundu menn leið til þess að nota milliliði eða lepp til að koma 300–400 milljörðum kr. til viðskiptabankanna þriggja til að reyna að bjarga þeim eða að láta þá snúast lengur eftir að ljóst var að allt stefndi í þrot og óefni. Seðlabanki Íslands hlýtur að bera höfuðábyrgð á því, virðulegur forseti.

Það er dálítið hart, virðulegur forseti, ef það á svo að hengja sparisjóðina fyrir að hafa tekið að sér þetta hlutverk milliliðsins og einstakir eignaraðilar Icebank eigi ekki eignir til þess að setja að veði á móti þessum lánum (Forseti hringir.) þegar Seðlabankinn vissi hvað hann var að gera og hvert þau áttu að renna.