136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[14:10]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Við erum í raun að ræða tvö nokkuð aðskilin mál sem er annars vegar staða sparisjóðanna og hins vegar staða fjárfestingarbankanna hinna minni sem lentu í vanda út af endurhverfu viðskiptunum við Seðlabankann. (HöskÞ: Þetta er sama málið.) Ég greindi frá því áðan að það mál væri til sérstakrar meðferðar hjá Seðlabanka og sérstökum starfshópi í fjármálaráðuneytinu sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytanna og Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og ég er mjög bjartsýnn á að niðurstaðan komi þaðan fljótlega. Ríkisstjórnin einsetti sér strax í upphafi að slá skjaldborg um starfsemi þessara smærri fjármálafyrirtækja og koma í veg fyrir að þau lentu í erfiðleikum og féllu á eftir og það eru mikil tímamót í þeirri umræðu og þeim ferli öllum nú í dag þegar við kynnum regluverk um aðkomu ríkisins að rekstri sparisjóðanna. Þær verða kynntar opinberlega í dag og kveða á um hámarksframlag og viðmiðunarefnahagsreikning og er raunhæf endurskipulagningaráætlun sem m.a. miðar að því að hlutfall CAD verði ekki lægra en 12% o.s.frv., eins og ég rakti áðan.

Þessar reglur og aðkoma ríkisins að rekstri sparisjóðanna eins og neyðarlögin frá því í byrjun október gáfu heimild til, upp á 20% innspýtingu eiginfjárhlutfalls, berum við vonir til að geri mjög mikið í því að stórbæta stöðu þessara sjóða. SPRON, Byr og Sparisjóður Keflavíkur ákváðu að fara í sameiningarviðræður og þær standa nú yfir og þeir hafa undirritað viljayfirlýsingu. Smærri sjóðirnir úti á landsbyggðinni, sem ég hef átt nokkuð marga fundi með á síðustu vikum og mánuðum, skoða frekar leið um nánara samstarf á ákveðnum sviðum. Það er mjög jákvætt ef það verður til þess að treysta stöðu þeirra áfram af því að það er gífurlega mikilvægt bæði fyrir fjölbreytnina í fjármálakerfinu og eins fyrir byggðirnar af því að þar er staða þessara sjóða mjög mikil og sterk og (Forseti hringir.) mjög mikilvægt að þeir geti áfram ræktað sitt félagslega hlutverk sem þeir hafa gert svo lengi.