136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

meðferð sakamála.

217. mál
[14:39]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Já, ég skrifaði undir álitið með fyrirvara. Í raun átti að skila séráliti eða engu áliti. Við stöndum hér frammi fyrir enn einu málinu sem er afleiðing bankahrunsins en ekki síður afleiðing samninga um ábyrgð á hinum svokölluðu Icesave-reikningum, sem ýmsir hafa sagt að væru glæpsamlegir, og fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Í kjölfar hrunsins er álag á dómstóla landsins og hina almennu löggæslu afar mikið en með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er dómstóla- og réttarvörslukerfið veikt verulega. Skorið er niður út og suður, nema þá helst hjá ríkislögreglustjóra sem þó sér sjálfur ástæðu til að skera niður efnahagsbrotadeild sína.

Þetta er sorglegt og reyndar óþolandi. Allir vita að staða löggæslumála, grenndarþjónustu, á Suðurnesjum er að verða til skammar. Ófremdarástand vegna manneklu og vart sjást löggæslumenn lengur á stöðum eins og Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum. Það sama gildir um lögsagnarumdæmi Árnessýslu. Ekki hefur verið skorið niður hjá lögreglunni á Selfossi en vegna fjárhagsskorts blasir við að þar verður að skera niður heila vakt.

Á höfuðborgarsvæðinu er sama mynd. Gríðarlegt álag hefur verið á lögreglumönnum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, höfuðborgarsvæðinu, og þeir hafa — vil ég halda til haga — staðið sig ótrúlega vel miðað við erfiðar aðstæður. Mikið og aukið álag á löggæsluna á öllu landinu og sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu kallar á mjög auknar fjárveitingar og eflingu. Líka er hægt að gera það með skipulagsbreytingum, með því að færa liðsafla frá ríkislögreglustjóra í almenna löggæslu og ekki veitir af.

Þessi tillaga er einn þáttur, þó ekki stór sé, í að veikja réttarvörslukerfið. Þetta frumvarp um meðferð sakamála hafði verið undirbúið og samþykkt sem lög frá Alþingi. Að baki lá fyrirhyggja og hugsun um styrkingu réttarvörslukerfisins sem nú er verið að veikja með þessari tillögu þótt frumvarpið sé — og ég endurtek það — langt í frá stærsti bitinn í því dæmi.

Í þessu samhengi vil ég rifja upp að það er ekki eingöngu bankahrunið sem veldur heldur viðbrögð ríkisstjórnarinnar við því. Ég nefndi áðan hina glæpsamlegu Icesave-reikninga og þá ábyrgð sem ríkið tók á þeim nauðugt, kúgað af Bretum. Kúgað af fleiri þjóðum Evrópu en í fararbroddi fór Evrópusambandið en fyrir það virðist öllu fórnað sem unnt er að fórna, jafnvel þjóðarhag til að ná þar inngöngu og til að styggja engan.

Það hefur sannarlega komið í ljós á síðustu vikum að þrátt fyrir aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og samvinnu við Breta og fleiri þjóðir í NATO má smáþjóð í kreppu sín lítils. Alþjóðalög og -reglur sem giltu um fullvalda ríki að þjóðarétti, bæði stór og smá, hafa orðið að víkja fyrir pólitískum þrýstingi og ofurefli ríkja sem telja sig eiga meiri hagsmuna að gæta. Ég vil sérstaklega halda því til haga að markmið bresku laganna um hryðjuverkavarnir hljóða upp á allt annað en að helga beitingu þeirrar efnahagslegu árásar sem Bretar gerðu á Ísland. Það var hvorki tilgangur né markmið né lagatexti sem stóð því til réttlætingar.

Hvers vegna skyldu menn þá hafa gengið að þessu? Af hverju beita Bretar okkur þessu ofurvaldi? Af og frá er að þessum hryðjuverkalögum hafi verið beitt gegn nokkru öðru Evrópuríki eða Bandaríkjunum. En þó urðu Bretar fyrir þungum búsifjum af bankahruni í Bandaríkjunum en lyftu ekki litla fingri. En þegar litla Ísland lá vel við höggi var það nýtt í pólitískum tilgangi til að næla í atkvæði í vondri stöðu sósíaldemókrata í Bretlandi og höggvið að smáþjóðinni Íslandi. Og viðbrögðin. Í stað þess að senda sendiherrann úr landi og hóta úrsögn úr NATO, hætta að flytja út til Bretlands 50–60 þús. tonn af óunnum afla, kiknaði ríkisstjórnin í hnjánum og samþykkti ábyrgðir og ofurvald og ægivald sem nú leiðir yfir okkur þær fjölmörgu breytingar og hremmingar sem ríkisstjórnin boðar með frumvörpum dag frá degi.

Brotið hefur verið gegn þjóðréttarlegum skyldum í samskiptum okkar. Það er algerlega ljóst. Það er ekkert, frú forseti, í ESB-samningnum eða alþjóðareglum sem mælir fyrir um það að ríkisstjórnir beri ábyrgð á bankainnstæðum í einkabönkum, eins og hér hefur verið farið fram með samningum um Icesave-reikninga ríkisins við Breta og Evrópusambandið. Undir þeirri kúgun. Engin ákvæði í alþjóðarétti mæla fyrir um það. Samningar sem gerðir hafa verið og þetta frumvarp er afleiðing af eru, frú forseti, nauðungarsamningar og þessir nauðungarsamningar eru ógildanlegir bæði að þjóðarétti og samkvæmt íslenskum lögum.

Nú er það meira að segja svo að beiting hryðjuverkalaganna var kæranleg stjórnsýsluathöfn. Kærufrestur rennur út 7. janúar næstkomandi og nú hefur þingið tekið af dagskrá þingsályktunartillögu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og fleiri um að þessari kæru verði beitt. Ekki er þar með sagt að halda þurfi málinu alveg til streitu en þetta er sjálfsagt innlegg í samningaviðræður okkar um Icesave-reikningana sem standa nú fyrir dyrum. Niðurstaða þeirra samningaviðræðna er algert grundvallaratriði fyrir fjármál Íslands og hagsmuni þjóðarinnar í framtíðinni. Við gerðum samninga umfram lagaskyldu. Það er algerlega ljóst og aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var háð því að við beygðum okkur undir kúgunina.

Hvað sýna þessir atburðir svo? Jú. Vegna fyrirhyggjuleysis íslenskra stjórnvalda og bankastjórnenda og ólögmætra viðhorfa Evrópusambandsríkja er íslenska þjóðin nú bundin á skuldaklafa næstu áratugi og meira að segja nauðsynlegum réttarfarsúrbótum samkvæmt lögum um meðferð sakamála er fórnað vegna hótana Evrópusambandsins. Þetta er auðvitað gersamlega óþolandi. Þetta er niðurlægjandi fyrir hina íslensku þjóð. Alveg með ólíkindum að þetta hafi gerst. Hvað heyrir maður svo um skýringuna? Jú. Skýringin er sú, og hún blasir reyndar við, að ekki má styggja Breta, Þjóðverja, Frakka, Austurríkismenn og allra síst Evrópusambandið út frá aðildarumsókn sem menn hugleiða mjög stíft þessa dagana.

Meira að segja var svo hart fram farið að ekki var leitað annarra úrræða sem að mínu mati hefðu leitt til þess að óþarfi hefði verið að flytja frumvarpið sem hér er til umræðu. Þ.e. skoða núllkostina. Taka slaginn. Lifa á því sem landið gefur. Neyslumynstur Íslendinga hefur nefnilega stórbreyst frá 6. október. Við flytjum út og öflum meiri gjaldeyris í dag en við eyðum og svo mun vonandi verða um langa hríð ef íslenska þjóðin tekur upp gömul og góð gildi, sparsemi og ráðdeild, samviskusemi og heiðarleika og réttsýni og réttlætiskennd verða höfð að leiðarljósi. Þennan kost átti að skoða í þaula. Ég hef rætt við ýmsa málsmetandi menn í atvinnurekstri og innan verkalýðshreyfingar og víðar í þjóðfélaginu, hagfræðinga sem aðra, og þeir benda á þennan kost sem raunhæfan. Alla vega svo raunhæfan að bara þurfi að reikna hann út. Áður en gripið var til þeirra örþrifaúrræða sem öll þau lagafrumvörp sem hér liggja fyrir og hafa verið afgreidd í kjölfar bankahrunsins leiða til. Þetta er óþolandi.

Vill Samfylkingin fórna öllu fyrir ESB-aðild? Standa ekki í fæturna? Vera ekki með nokkra samningsstöðu í dag? Hvaða samningsstöðu munum við eiga gagnvart Evrópusambandinu ef það veit hversu veik við erum í hnjánum? Hversu veik við vorum í hnjánum gagnvart Icesave-reikningunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hvar endar það?

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.