136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

meðferð sakamála.

217. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek til máls bæði til að svara ákveðnum spurningum sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson beindi sérstaklega til mín en þó einkum til þess að minna á hvaða mál við höfum hér til umfjöllunar vegna þess að í ræðu sinni, sem að sumu leyti var ágæt, fór hv. þm. Árni Þór Sigurðsson inn á afar mörg mál og minnst inn á það sem hér er til umræðu. Ég vildi því nota tækifærið í andsvari til þess að minna á að við erum að fjalla um það litla mál sem snertir að fresta gildistöku ákvæða um héraðssaksóknara frá 1. janúar 2009 til 1. janúar 2010. Við erum ekki að fjalla um efnahagsmál almennt, við erum ekki að fjalla um ríkisfjármál almennt, við erum ekki að fjalla um Icesave-deiluna, við erum ekki að fjalla um milliríkjasamskipti almennt, þannig að það liggi fyrir.

Hins vegar get ég notað þetta tækifæri til að svara því, af því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði mig að því sérstaklega, að ég er eindreginn stuðningsmaður þess frumvarps sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri flytja um málsókn á hendur Bretum, ég vil að það komi skýrt fram. Ég tel hins vegar að það hafi ekkert með þetta tiltekna mál að gera sem við ræðum hér en ég styð það mál og mun greiða því atkvæði. Ef ég get með einhverjum hætti orðið til þess að greiða fyrir framgangi þess í þinginu er það sjálfsagt af minni hálfu.

Hins vegar vil ég undirstrika að það frumvarp sem hér er flutt er auðvitað flutt með tilliti til efnahagsástandsins almennt, hins mikla tekjufalls sem orðið hefur hjá ríkinu og hefur gerbreytt öllum forsendum fjárlaga. En það gerir það ekki að verkum að allsherjarnefnd Alþingis fari í almenna efnahagspólitíska eða utanríkispólitíska umræðu þegar hún fjallar um þetta tiltekna mál.