136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

verslun með áfengi og tóbak.

209. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög athyglisverð ræða og þörf. Hún fjallar reyndar um dálítið annað efni en við erum að fjalla um hérna, við erum að tala um álagningu en hv. þingmaður talaði meira um áfengisgjaldið. Það er rétt hjá honum að það hefði mátt hækka það um 70% á bjór og 31% á vín þannig að það héldi í við vísitölu frá því að það var sett á upphaflega. Það hefur þannig í reynd valdið lækkun á vísitölu og brenglað þá útreikninga sem menn eru með sí og æ um að þetta auki skuldir heimilanna.

Það sem ég ætlaði að koma inn á er að þessi áfengisneysla er ekki bara mæld í peningum. Óhamingjuna og harmleiki lífsins sem verða á heimilunum í kjölfarið á óhóflegri áfengisneyslu er ekki hægt að mæla í peningum. Vanræksla barna og misþyrmingar og ofbeldi er miklu alvarlegri hlutur sem leiðir af ofneyslu áfengis. Þess vegna mátti ég til með að koma í pontu og geta þess að þetta er ekki bara peningatap, þessi ofneysla er miklu alvarlegri.