136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

ársreikningar.

212. mál
[15:43]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég hef ekkert við umrætt frumvarp að athuga, eins og komið hefur fram. Ég tel að það gæti verið til góðs en ég vil samt vekja athygli á því að hér er verið að tala um þá sem eru að búa til gjaldeyri og flytja út gjaldeyri og þar er ákveðin stétt manna í þjóðfélaginu sem heitir íslenskir sjómenn. Samfara því að þetta yrði að lögum væri ekki óeðlilegt að íslenskir sjómenn, sérstaklega á frystiskipum sem eru upp á hlut, fengju laun sín greidd inn á erlenda gjaldeyrisreikninga eða gjaldeyrisreikninga í íslenskum bönkum og fengju þar af leiðandi hvort sem það væru evrur, dollarar eða jen inn á reikninga sína. Þannig mundi ekki bara útgerðarmaðurinn sem gerir út skipið fá evrur, dollara eða pund í sinn hlut eða hvaða gjaldmiðil sem er, heldur nytu sjómenn þess líka.

Sama má segja um fiskvinnslukonuna og sjómenn á bát. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á, t.d. varðandi trillukarlinn að hann eigi rétt á því að gera upp í erlendri mynt þar sem hann selur afurð sína í erlendri mynt, þá er þetta atriði sem menn þyrftu aðeins að hugleiða, hvort það væri ekki rétt að sjómenn fengju gert upp í erlendri mynt og gætu að sama skapi nýtt sér gjaldeyrisbreytingar og gengisfallið mundi nýtast þeim en ekki bara hjálpa útgerðinni að borga með verðminni íslenskum krónum.