136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[15:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs hér við 2. umr. um þetta mál um aukatekjur ríkissjóðs. Nú liggur fyrir nefndarálit frá efnahags- og skattanefnd og þar kemur fram að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og ekki er ágreiningur um málið í nefndinni.

Ég vil taka fram að ég hef í sjálfu sér ekki mikilvægar athugasemdir við efni frumvarpsins að því er lýtur að fyrstu þremur greinum þess og ekki heldur 5. gr. um gildistöku, en 4. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Fyrir afritun og afhendingu gagna með rafrænum hætti skal greiða 150 kr. fyrir hverja blaðsíðu, allt að tíu blaðsíðum, en 50 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram tíu.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir um þessa grein, með leyfi forseta:

„Um 4. gr. Í 1. mgr. 17 gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að innheimta 150 kr. gjald fyrir hverja ljósritaða blaðsíðu. Engin lagaheimild er hins vegar nú fyrir gjaldtöku þegar sama efni er afhent rafrænt, en afhending gagna með þeim hætti hefur stóraukist með tilheyrandi kostnaði. Í greininni er því að finna tillögu um að fyrir afritun og afhendingu gagna með rafrænum hætti skuli greiða 150 kr. fyrir hverja blaðsíðu, allt að tíu blaðsíðum, en 50 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram tíu blaðsíður.“

Eins og ég hef skilið málið, mun vera um sambærilega gjaldtöku að ræða og þegar gögn eru afhent í endurriti eða ljósriti.

Aðeins ein umsögn barst um þetta mál, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og þar er sérstaklega gerð athugasemd við þessa grein málsins. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir m.a., með leyfi forseta:

„Samband íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að gera athugasemdir við þetta ákvæði frumvarpsins. Í greinargerð með frumvarpinu segir að engin lagaheimild sé nú fyrir gjaldtöku vegna afhendingar efnis með rafrænum hætti, þrátt fyrir að slík afhending hafi stóraukist. Mikilvægt er að gæta hófs í gjaldtökuheimildum og telur sambandið rétt að benda á að ekki er neitt samræmi á milli gjaldtökuheimildarinnar og raunkostnaðar við afhendingu gagna með rafrænum hætti.“

M.a. af ástæðunni sem hér kemur fram finnst mér mikilvægt að heyra viðhorf formanns nefndarinnar um þau álitamál sem koma fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og að hve miklu leyti nefndin hefur sérstaklega rætt þau. Ég get tekið fram að ég sat einn fund í nefndinni þegar málið var til umfjöllunar en ekki þegar það var til afgreiðslu og þessar athugasemdir komu þar fram.

Hér er líka spurt hvort um sé að ræða nýmæli að hvort farið sé inn á þá braut að innheimta gjald fyrir efni sem kann að vera aðgengilegt á vefsíðum, til að mynda ráðuneyta eða ríkisstofnana. Við getum tekið dæmi um að á vefsíðum ýmissa ráðuneyta og stofnana er hægt að sækja sér upplýsingar, t.d. umsóknareyðublöð, og spurningin er m.a. hvort hér sé verið að feta inn á þá braut að taka upp gjald fyrir slíkt efni.

Í umræddri umsögn kemur líka fram að eðlilegra væri að gjaldtökuheimild fyrir sendingu rafrænna gagna væri lægri en gjaldtaka fyrir afhent ljósrit eða endurrit og m.a. vísað til umhverfissjónarmiða sem eru mikilvæg í þessu efni og því haldið fram að með lægra gjaldi fyrir rafræn gögn mætti ætla að komið yrði í veg fyrir óþarfa notkun pappírs. Af þeim sökum væri líka eðlilegt að gjaldtaka fyrir gögn með rafrænum hætti væri lægri en fyrir önnur gögn.

Í umsögn sambandsins segir jafnframt áfram, með leyfi forseta:

„Mismunandi reglur gilda um gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga, en gjaldtaka sveitarfélaga byggir á gjaldskrá sem forsætisráðherra hefur sett á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996. Samkvæmt henni er heimilt að innheimta 10 til 20 kr. fyrir ljósrit af gögnum sem afhent eru á grundvelli upplýsingalaga. Ljóst er að mikill munur er á heimildum ríkissjóðs samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs og umræddri frumvarpsgrein og gildandi gjaldskrá samkvæmt upplýsingalögum og þann raunkostnað sem hlýst af afritun og afhendingu gagna hvort sem er í endurriti eða með rafrænum hætti.“

Þetta er mikilvægt að draga fram, herra forseti, vegna þess að það varpar ljósi á að annaðhvort er hér um verulega mismunun að ræða á milli gjaldtökuheimilda ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar — eða þá að löggjafinn gerir ráð fyrir því að eitt stykki ljósrit sé miklu dýrara í ljósritunarvélum ríkisins en í ljósritunarvélum sveitarfélaganna. Ég hlýt að velta því upp í þessu samhengi hvort hv. þm. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar, sé þeirrar skoðunar að ferlið sé mun dýrara, vinnan og efnið, við að taka ljósrit hjá ríkisstofnun en á skrifstofu sveitarfélags og afhenda það, vegna þess að væntanlega er um það að ræða að þetta gjald sé fyrir veitta þjónustu og eigi þess vegna að endurspegla raunkostnað. Hvernig stendur þá á því að gert er ráð fyrir að gjald fyrir ljósrit eða endurrit hjá ríkinu sé um 150 kr. fyrir fyrstu tíu blaðsíðurnar en 50 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram það en aðeins 10 til 20 kr. hjá sveitarfélögunum? Þetta tel ég vera misræmi og mismunun sem sé röng og fái ekki staðist nema ég heyri þá þeim mun sterkari, málefnalegri og efnislegri rök fyrir þessari mismunun.

Að lokum er á það bent í umsögn sambandsins að eðlilegt sé að veita sveitarfélögunum sambærilega heimild og ríkissjóði er veitt með 17. gr., eins og hér segir, með leyfi forseta:

„… enda eðlilegt að sveitarfélögum líkt og ríkissjóði sé heimilt að innheimta gjöld vegna kostnaðar sem þau verða fyrir við afhendingu endurrita og ljósrita.“

Í umsögn sinni gerir Samband sveitarfélaga tillögu um breytingu á orðalagi greinarinnar og leggur til að hún hljóði þannig, með leyfi forseta:

„Fyrir afritun og afhendingu gagna með rafrænum hætti, sem ekki eru þegar til í rafrænu formi, skal greiða 150 kr. fyrir hverja blaðsíðu, allt að tíu blaðsíðum, en 50 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram tíu“

Lagt er til að þegar gögn eru afhent á rafrænu formi, sem eru ekki þegar komin á rafrænt form, sé heimilt að taka sama gjald og um ljósrit eða endurrit sé að ræða, en ef um er að ræða gögn sem þegar eru til í rafrænu formi geti kostnaðurinn ekki verið sá sami. Þess vegna sé ekki eðlilegt að taka jafnhátt gjald fyrir. Hér er því lagt til að greinin hljóði eins og ég hef þegar gert grein fyrir.

Mér leikur sem sagt forvitni á að fá að vita hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar hvaða umræða hefur farið fram um þetta atriði sérstaklega og hver afstaða hans sé til þess. Ég tek eftir því að í nefndarálitinu er ekki gerð nein tillaga um breytingu hér að lútandi og heldur ekki getið sérstaklega um þessa umsögn. Það er aðeins sagt að umsögn hafi borist frá sambandinu en ekki gerð grein fyrir því í hverju hún felst, vegna þess að hér finnst mér vera mikilvægt efnisatriði og mér finnst vera málefnalegar forsendur fyrir þessari athugasemd og breytingartillögunni.

Ég hef, eins og ég segi, tilhneigingu til þess að koma með breytingartillögu við frumvarpið í samræmi við tillöguna frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga nema ég heyri þá þeim mun sterkari og kröftugri efnislegri rök fyrir því að hafa þetta með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir og óska eftir því að hv. formaður efnahags- og skattanefndar upplýsi um hvernig hann lítur á þetta mál.