136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til laga um kjararáð, sem er mál sem er þannig til komið að hæstv. utanríkisráðherra lýsti því yfir að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um hvernig kjörum æðstu embættismanna þjóðarinnar og ráðherra ríkisstjórnarinnar yrði háttað. Það var gert í framhaldi af því að kjararáð tilkynnti ríkisstjórninni að það tæki ekki við fyrirmælum frá henni heldur þyrfti að breyta lögum og því fengum við þingmenn að heyra það í fjölmiðlum frá hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að breyta þessu og mundi finna leið til þess, finna bara einhverja leið.

Þetta sýnir kannski, hæstv. forseti, í hnotskurn hvernig þingræðið er hér á landi, eða óþingræðið, því að við alþingismenn heyrum þegar hæstv. ráðherrar gefa út skipanir til þingmanna sinna, meiri hlutans hér á þingi, og ætlast til að þeim sé fylgt í blindni og ég hef ekki trú á að einhver undantekning verði í þessu máli frekar en öðrum, enda svo sem ekki ástæða til. (Gripið fram í.)

Málið sem við ræðum hér kemur ekki til af góðu. Íslenskt efnahagslíf er í rúst, held ég að megi segja. Mjög alvarleg staða er uppi í íslensku efnahagslífi og ég hef hreinlega orðið orðlaus vegna margra tillagna sem hafa komið frá stjórnarmeirihlutanum um auknar álögur á lágtekjuhópa og niðurskurð í velferðarþjónustunni.

Við ræddum í gær, hæstv. forseti, frumvarp sem ríkisstjórnin lagði fram sem felur í sér það að kjör aldraðra og öryrkja verða skert um 3,9 milljarða kr. Leggja á um 800 millj. kr. álögur á bændur með því að draga þá fjárhæð af búvörusamningunum. Mér sýnist að tekjur háskólastúdenta og þeirra sem stunda nám í atvinnuleysinu verði ekki upp á marga fiska í framhaldinu og ræddi það við hæstv. menntamálaráðherra í dag. Skerða á vaxta- og barnabætur um 10% á næsta ári og taka 400 millj. kr. af foreldrum sem eru að hefja töku fæðingarorlofs.

Ljóst er að verið er að skerða þar sem síst skyldi og auðvitað mælumst við þingmenn til þess að það sé ekki forgangsröðunin heldur byrji menn á hinum endanum og taki af þeim sem eru aflögufærir. M.a. þess vegna er þetta frumvarp komið fram um lækkun launa embættismanna ríkisins, eða þeirra sem heyra undir kjararáð. (Gripið fram í.) Við ræddum mikið um það á vettvangi nefndarinnar hvort við ættum að einskorða frumvarpið einungis við ráðherra og alþingismenn eða hvort við beindum þeim tilmælum til kjararáðs að það lækkaði laun allra æðstu embættismanna ríkisins, dómara, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra í ráðuneytum, presta, sendiherra og þar mætti áfram telja stóran hóp fólks sem er óneitanlega með þeim tekjuhærri í opinbera kerfinu.

Við sjáum að sveitarfélögin grípa nú til aðhaldsaðgerða og lækka laun starfsfólks síns. Almenni vinnumarkaðurinn er langt á undan hinu opinbera og starfshlutfall fólks á almennum vinnumarkaði er minnkað. Þess vegna þótti mér og öðrum nefndarmönnum ekki annað fært en að æðstu embættismenn þjóðarinnar gengju í takt með þjóðinni þegar allir taka á sig kjaraskerðingu — því miður — en við þurfum að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Ég vil af þessu tilefni þakka hv. formanni nefndarinnar, Pétri H. Blöndal, fyrir gott samstarf, hann hélt ágætlega á málinu og við fengum m.a. á fund okkar formann kjararáðs, Guðrúnu Zoëga, sem fór yfir málið með okkur.

Það er bjargföst skoðun mín að ef við ætlum að halda frið á íslenskum vinnumarkaði og viljum að Alþingi og þjóðin gangi í takt verði þessi breyting að eiga sér stað. Við tölum um æðstu embættismenn ríkisins sem margir hverjir — óneitanlega í ljósi þess að þeir eru opinberir starfsmenn — njóta meiri verndar í starfi en fólk á almennum vinnumarkaði. Óumflýjanlega þarf að minnka kostnað hjá hinu opinbera, við verðum að gera það m.a. til að geta staðið vörð um ákveðna þætti, til að mynda um kjör aldraðra og öryrkja sem því miður hefur þurft að skerða að undanförnu.

Ég tel að ef Alþingi hefði ekki lagt fram þetta frumvarp hefðum við rofið almenna sátt í samfélaginu því að ekkert annað á gilda um æðstu embættismenn þjóðarinnar en venjulega vinnandi menn.

Í ljósi þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti mjög athyglisvert mál hér fyrir rúmri klukkustund — í framhaldinu var fundi frestað — vil ég vekja athygli á því og þeim orðum hans þegar hann rifjaði upp þá tilraun sem gerð var á sínum tíma til þjóðarsáttar þar sem menn settust niður og reyndu að horfa á heildarmyndina, þannig að allir tækju á sig einhverja skerðingu. Við í stjórnarandstöðunni, ég held úr öllum flokkum hennar, höfum á undangengnum 12–16 mánuðum hvatt ríkisstjórnina til að kalla saman aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og aðra helstu aðila sem um véla í samfélaginu til að koma á fót nokkurs konar þjóðarsátt. Að mínu viti er þetta virðingarverð tilraun til að hefja slíkt ferli en að sjálfsögðu hefðu stjórnvöld og ríkisstjórnin átt að vera búin að setjast niður með helstu hagsmunaaðilum í samfélaginu og móta og gera einhverja tilraun til þess að koma á þjóðarsátt í samfélaginu.

Staðreyndin er sú að engin þjóðarsátt er í dag og við þurfum ekki nema að horfa til mótmælanna á Austurvelli á hverjum laugardegi þar sem ósköp venjulegt fólk kemur til þess að mótmæla ríkjandi ástandi og það er ekkert óeðlilegt. Að sumu þessa fólks hefur aldrei fyrr hvarflað að mótmæla, jafnvel á langri ævi, en nú er margt þeirra að missa vinnuna og hlýtur að gera þá kröfu til okkar að við göngum í takt við samfélagið, ekki bara þingmenn og ráðherrar heldur líka aðrir æðstu embættismenn ríkisins. Ekki kemur til greina að við samþykkjum hér fjárlög sem fela það í sér að við setjum heilmikinn niðurskurð á heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi landsins og skiljum svo undan æðstu embættismenn ríkisins. Mér finnst því mjög brýnt að samþykkja frumvarpið sem allra fyrst með því fororði að kjararáð lækki laun æðstu embættismanna ríkisins og öll tvímæli verði tekin af í þeim efnum.

Hæstv. forseti, í ljósi þess sem við höfum heyrt og séð varðandi framtíðargrundvöll íslensks velferðarkerfis þurfum við að gæta hófs og aðhalds á ýmsum sviðum. Þessi hluti hins opinbera, þ.e. þessar stéttir eru ekki undanþegnar því að þurfa að taka þátt í því að endurreisa íslenskt samfélag.

Reyndar var það svo og það kemur fram í nefndarálitinu að við fengum andmæli við þetta frá ákveðnum stéttum sem heyra undir kjararáð og þar getum við nefnt Dómarafélag Íslands, Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Prestafélag Íslands, svo nokkur séu nefnd. Auðvitað gegna þessar stéttir mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu, og haft var á orði að í ljósi ástandsins ykist álag á þær til muna. Ég ætla ekkert að draga úr því og held að ég tali af eigin reynslu, þar sem ég mælist hér til þess að laun þingmanna og ráðherra verði lækkuð, að ég held að sjaldan hafi verið eins mikið álag á kjörnum fulltrúum þjóðarinnar og á síðustu tveimur og hálfum mánuði og ég held að hv. þingmenn geti staðfest það, hvað þá hæstv. ríkisstjórn.

Ég held að þannig sé það í raun og veru um allt samfélagið. Mikið álag er á fjölskyldunum, starfsfólki á heilbrigðisstofnunum og æðstu embættismenn þjóðarinnar geta ekki tekið sig út fyrir sviga og sagt að í ljósi ástandsins verði vinnuumhverfið miklu erfiðara fyrir þá. Vegna þess að ég held að almennt séu mjög erfiðir tímar að ganga í garð fyrir okkur öll og ef við viljum halda þjóðarsátt á þessum erfiðu tímum þurfa þessar stéttir rétt eins og við hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar að taka þátt í uppbyggingarstarfinu sem fram undan er.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum lýsa því yfir að ég tel brýnt að við afgreiðum þetta mál með skjótum hætti. Ég vil líka segja í ljósi orða forseta lýðveldisins, en hann hefur óskað eftir því að tekjur hans dragist saman, að ég tel að mjög mikilvægt sé að allir taki þátt í þessu. Hann er reyndar með stjórnarskrárvarinn rétt en mér finnst að við þurfum öll að vera í sama bátnum í þessu máli. Þess vegna beini ég því til allra og líka þeirra stétta sem ég hef nefnt hér að við stöndum saman í þessu því að ekki er réttlátt á meðan nær allir launamenn á Íslandi taka á sig kjaraskerðingar að einhverjar stéttir taki sig þar úr. Það er einfaldlega þannig komið að við tökum margar óvinsælar ákvarðanir og ég vil frekar byrja á þessum enda en að við skerðum kjör aldraðra og öryrkja og vegum að velferðar- og menntakerfi landsins.

Helst hefði ég viljað að við hefðum tekið þetta mál á dagskrá fyrir löngu. Reyndar er það svo í þessu árferði að hlutir sem gerast á einum degi jafnast á við það sem gerðist jafnvel á heilli viku fyrir ári síðan þegar allt var rólegra í samfélaginu og reyndar hefur verið mikið álag á störfum Alþingis. Ég hvet hv. þingmenn til þess að ganga hratt í málið og það verði að lögum vonandi á morgun, þannig að kjararáð geti tekið sig til og ákvarðað laun æðstu embættismanna ríkisins. Það er nauðsynlegt á þessum tímum fyrir okkur öll og til hagsbóta fyrir samfélagið því að við verðum öll að taka þátt í því að endurreisa íslenskt samfélag sem á núna í verulegum erfiðleikum.