136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:25]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir margt af því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi áðan. Ég tel það mjög góð skilaboð út í samfélagið þegar Alþingi ályktar og ákveður að hvetja til þess að laun þingmanna og ráðherra verði lækkuð svo og annarra sem eru á mjög háum launum. En undir kjararáð heyrir líka prestastéttin eins og hv. þingmaður nefndi. Ég er ekki alveg sammála honum í því að það sé mjög auðvelt eða gott fyrir presta að vera í sams konar launabaráttu og aðrar stéttir því að það hefur sýnt sig að prestar geta mjög illa beitt verkfallsvopni og staðið í grimmri kjarabaráttu. Þess vegna varð það niðurstaða að laun presta heyrðu undir kjararáð. Hins vegar tek ég undir að það sé ekki rétt að Alþingi ákveði að kjararáð eigi að endurskoða laun presta til lækkunar, því að prestar eru á svipuðum kjörum og mjög margar aðrar háskólamenntaðar stéttir og gegna ýmsum störfum í þágu ríkisins og þjóðarinnar. Ef farið verður út í að lækka laun presta þá er spurning hvort menn ætli næst að lækka laun t.d. menntaskólakennara, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa, lækna og fleiri stétta? (Forseti hringir.) Eða á þetta að vera vísbending til almennings um að láta lækka laun sín?