136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hreinlega ólöglegt að skerða kjarasamningsbundin kjör, það er ólöglegt. Það sem hægt er að gera er að taka á einstaklingsbundnum kjörum en þó einvörðungu þannig að það sé gert samkvæmt uppsagnarfresti.

Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á því að í ýmsum stofnunum er sá lagalegi réttur starfsfólks ekki virtur. Ég hef það fyrir satt að hjá Ríkisútvarpinu sé verið að lækka einstaklingsbundna samninga frá og með næstu áramótum. Mér var greint frá þessu í dag. Það er ekki í samræmi við lög. Ég óttast að hér sé að myndast í landinu einhver lenska, einhver stefna, einhver hugsun, einhver sefjun sem gengur út á það að þeim sem ráða för í fyrirtækjum og stofnunum sé í sjálfsvald sett hvernig þeir fara með kjör starfsfólksins. Það er af og frá. Ég ítreka að það er ólöglegt að skerða kjarasamningsbundin kjör og ef ráðist er í kjarajöfnun eða kjaralækkun á að sjálfsögðu ævinlega að gera það í samstarfi og samráði við samtök starfsfólksins.

Hvað varðar þá sem heyra undir kjararáð gegnir öðru máli að því leyti að þeir hópar hafa afsalað sér rétti sínum til samninga, það er staðreynd. Þeir hafa staðið í biðröðum forstjórarnir sem hafa óskað eftir því að komast út úr stéttarfélögum og undir kjararáð.

Varðandi prestana þá geta menn deilt um hvar þeim væri best borgið og (Forseti hringir.) hvort og hvernig þeir geti háð sína kjarabaráttu. Ég kem kannski að því aftur í síðara andsvari.