136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Samstaðan getur verið fólgin í því að vilja jafna kjörin og stuðla að réttlátum skiptum. En ég held að prestar ættu að drífa sig hið fyrsta undan kjararáði. Það er erfitt fyrir margar stéttir að heyja kjarabaráttu. Ég nefni það t.d. að lögreglumenn búa ekki við verkfallsrétt. Menn geta háð kjarabaráttu sína í samvinnu og samstöðu með öðrum og í heildarsamtökum leggja allir leggja sitt af mörkum, t.d. til þess að efla og styrkja réttindabaráttuna eða standa vörð um réttindi ef því er að skipta. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann. Ég held að í grundvallaratriðum séum við sammála um að ekki gegni sama máli um hóp eins og prestana og hér er um að ræða svokallaða „æðstu embættismenn“ og aðra þá sem á einstaklingsgrunni standa utan kjarasamtaka.

En sameinumst um það að koma þeim skilaboðum áleiðis til prestastéttarinnar að drífa sig undan kjararáði og ganga inn í heildarsamtök opinberra starfsmanna. Þar eiga þeir samleið með öllu launafólki.