136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:33]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Þetta virðist koma eitthvað við kaunin á hæstv. iðnaðarráðherra eða réttara sagt olíumálaráðherra í dag, að maður skuli voga sér að draga í efa eða þora að tala um verk ríkisstjórnarinnar með einum eða öðrum hætti.

Það vill svo til að það er verið að leggja fram frumvarp og ég spyr bara: Af hverju er það lagt fram? Það er lagt fram til þess að tryggja að það verði til fjármagn handa skilanefnd KB-banka til að fara með málið áfram. Það er minn skilningur á þessu frumvarpi, og tilgangur frumvarpsins er sá að tryggja að það verði ekki peningar sem komi í veg fyrir að farið verði í þessi málaferli.

Við erum að falla á tíma. Eftir því sem sagt hefur verið hér í þinginu rennur fresturinn út 7. janúar, þá er síðasti frestur til að fara með málið áfram.

Það er auðvitað sorglegt fyrir ríkisstjórnina að hafa ekkert verið að vinna í málunum og jafnvel ekki talað um þessi mál við skilanefndina. Hvað á maður að halda þegar hæstv. olíumálaráðherra talar á þessum nótum?

Hrun KB-banka er augljóslega út af gjörðum bresku ríkisstjórnarinnar eða réttara sagt skoðanabróður og flokksbróður hæstv. olíumálaráðherra, Gordons Browns, sem er jafnaðarmaður eins og hæstv. olíumálaráðherra. Það er auðvitað hann sem setur þessi hryðjuverkalög á okkur og við ætlum okkur að fara í mál við hann og hans ríkisstjórn.

Ég man þess ekki betur en að hæstv. olíumálaráðherra hafi margsagt (Forseti hringir.) að hann ætlaði ekki að kyssa á vöndinn. En hvað er hann að gera í rauninni?