136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:35]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að mér fellur miklu betur að vera kallaður hæstv. olíumálaráðherra því að það er titill sem ég mun a.m.k. af fremsta megni reyna að standa undir.

Það er nú ekki svo, herra forseti, að sá olíumálaráðherra sem hér stendur hafi kysst, eins og ég nefndi það í ræðu minni, á vönd kvalara minna. Sú umræða spannst af því að ég sem starfandi utanríkisráðherra um tíma taldi að það væri fráleitt að Bretar væru fengnir til þess að veita hér loftrýmiseftirlit. Það var dregið í efa af sumum að þar fylgdi hugur máli. Hv. þingmaður veit að það er kominn desember, ekki eru Bretarnir komnir og þeir munu ekki koma.

Nei, herra forseti, ræða mín hér áðan kviknaði af því tilefni að olíumálaráðherra er nú hlýtt til allra þeirra sem hafa einhvern kvóta og hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur alltaf villukvóta hjá mér. Ég kom hingað einungis til að benda honum á þau augljósu sannindi að oft væri betra, ekki endilega alltaf en a.m.k. stundum og örugglega af þessu tilefni, að hv. þingmenn læsu frumvarpið sem þeir töluðu um. Það kom í ljós í ræðu hv. þingmanns að hann taldi þetta frumvarp tryggja málshöfðun. Svo er ekki. Ég benti honum á að samþykkt þessa frumvarps mun tryggja (Gripið fram í.) að málshöfðun mun ekki falla niður vegna þess að þeim sem hyggjast að henni standa verði féskipt.

Það tryggir hins vegar ekki ef, eins og kemur fram í greinargerð af hálfu flutningsmanna, einhverjar aðrar ástæður kröfuhafa í Kaupþing t.d. liggja til þess að fara ekki í slíka málshöfðun. Mætti þá kannski spyrja hvaða ástæður það gætu verið. Ég þekki þær ekki. Ég er alveg sannfærður um að hv. þingmaður sem ég (Forseti hringir.) er að ásaka um að hafa ekki lesið frumvarpið veit það enn síður en ég.