136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra að þau kalla öll skýrt eftir því að seðlabankastjóri upplýsi hvað það er sem hann telur sig vita sem ástæður þess að hryðjuverkalögunum var beitt. Þess vegna er algjörlega fráleitt að halda því fram að af hálfu ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna sé einhver ótti við að fá það fram í dagsljósið sem seðlabankastjóri þykist vita.

Ég ætla hins vegar að setja fram aðra tilgátu. Ég tel engar líkur á að seðlabankastjóri viti nokkurn skapaðan hlut um málið. Ég held að þetta sé einfaldlega smjörklípa af hans hendi til að draga athygli frá öðrum málum og þá sérstaklega slakri framgöngu Seðlabankans á ýmsum sviðum í kringum hrunið og aðdraganda þess. Þetta minnir óneitanlega á hátterni drýldins smápatta sem þykist búa yfir einhverju sem hann í reynd býr ekki yfir og spilar sig stóran með því. Ég held að við eigum ekki að gera því skóna að seðlabankastjóri viti nokkurn skapaðan hlut í þessu efni, ég held að það sé eðlilegra að lesa þetta sem einhvers konar tilraun til að gera sig breiðan í umræðunni.