136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:53]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Seðlabankastjóri segist vera með upptökur og geyma upptökur lengur núna en hann gerði áður eða hafi verið vinnuregla Seðlabankans sem var að geyma upptökur í sex mánuði en nú séu þær geymdar lengur. Af einhverjum ástæðum sér hann ástæðu til að halda þessum upptökum, væntanlega segja þær eitthvað.

Það er samt ótrúlegt, hæstv. forseti, að við skulum búa við það að ríkisstjórn Íslands skuli líða seðlabankastjóra það að upplýsa ekki og segja það sem hann veit um þessi mál. Eða er óeðlilegt að óbreyttir þingmenn í þinginu álykti að það sé meiri maðkur í mysunni en komið hefur fram um að ráðherrar í ríkisstjórninni hafi gert einhver afglöp, stærri og meiri afglöp en þeir hafa orðið uppvísir að áður? Er óeðlilegt að við og almenningur í landinu spyrjum: Hvað er undir steininum, hvað er undir? Af hverju fæst þetta ekki upp og af hverju situr seðlabankastjóri í skjóli ríkisstjórnarinnar, (ÁI: Í skjóli Samfylkingarinnar.) í skjóli Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar allrar? Af hverju er málið ekki upplýst? Af hverju er þjóðinni haldið í þessari óvissu að einhver embættismaður veit eða þykist vita hvað er í gangi?

Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að hann viti ekkert og hann sé bara eins og lítill drýldinn strákur að monta sig af einhverju sem hann hefur ekki hugmynd um, það getur vel verið að það sé alveg rétt. En þetta er samt með ólíkindum, við erum að tala um einn hæst launaða embættismann Íslands sem ber mikla ábyrgð á þeirri ógæfu sem búið er að setja þessa þjóð í núna. (Forseti hringir.) Þetta er ótrúlegt.