136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:23]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að leiðrétta hv. þingmann sem fór rangt með það sem ég hafði sagt. Ég hélt því ekki fram að verið væri að færa þingmenn í A-deildina heldur að að færa réttindi þeirra til samræmis við það sem væri í A-deildinni, á því er auðvitað munur.

Mig langar að rifja hér upp það sem fram hefur komið, að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins kemur fram að þeir sem eru í A-deild njóta þeirra réttinda að þeir geta tekið út lífeyri sinn samhliða starfi og réttur til lífeyris er ekki bundinn við starfslok. Þeir geta haldið áfram í starfi sínu þegar þeir hafa náð þeim aldri að þeir geta tekið út lífeyri og eiga rétt á því.

Fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra að hann taldi að — áður en ég kem að því minni ég á að hv. þingmaður sagði í viðtali í Morgunblaðinu 22. júní 2006 að afnema ætti eftirlaunalögin og, með leyfi forseta:

„… láta þessa starfsmenn hins opinbera ganga inn í þá sjóði sem fyrir eru, sem væri þá væntanlega A-deild LSR. [...] Um þessa starfsmenn eiga að gilda sömu reglur og um aðra en ég kem ekki auga á nein rök sem mæla með öðru.“

Ég spyr hv. þingmann: Er hann sammála því að verði eftirlaunaréttindi alþingismanna færð til samræmis við það sem gildir í A-deild LSR að það gildi þá að öllu leyti? Ég spyr hann jafnframt að því hvort það sé rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að þeir sem fá lífeyri úr A-deild LSR búi við skerðingu á þeim lífeyrisréttindum hafi þeir aðrar tekjur.