136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst einkar athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég man eftir að hafa hlustað á hv. þingmann einhvern tímann áður í útvarpi þar sem hann talaði að mig minnir um átta ára regluna sína. Þar sem hann sagðist helst ekki vilja stoppa lengur á sama vinnustað en í átta ár.

Mér sýndist miðað við upptalninguna að hann hefði gert ansi góða hluti á fyrstu átta árunum. Það er svo spurning hvort eitthvað nýtt kæmi miðað við það sem hann gerði þessi fyrstu átta ár.

Ég skal viðurkenna að þegar ég tók þátt í prófkjöri og valdist fyrst á lista fyrir sex árum síðan vorum við með tvöfalt kjördæmaþing og það kostaði mig nú lítið annað en ferðalög um kjördæmið. Prófkjörið hjá Suðurkjördæmi síðast kostaði mig um 700–800 þús. og borgaði ég það að langmestu sjálf, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Ég man ekki eftir því að hafa velt sérstaklega fyrir mér hvert þingfararkaupið væri og því minna hver lífeyrissjóðsréttindin væru. Ég taldi að meira máli skipti að koma hugsjónum mínum á framfæri en endilega hver ættu að vera kaup og kjör á þinginu. Þannig að við ættum kannski að tala aðeins meira um það af hverju við erum hér og hver tilgangur okkar er, frekar en að tala endalaust um hver lífeyrissjóðsréttindi okkar verða eftir ákveðinn árafjölda.