136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:27]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta ákvæði um makalífeyri til varaþingmanna var óeðlilegt og það var fyllsta ástæða til að breyta því. Það var samt ekki ástæða til að breyta makalífeyrisréttindunum að öllu leyti eins og gert var því að það var ekki látið duga að afnema það sem var óeðlilegt, heldur var líka allt annað skert. Þessi réttindi maka voru þannig að þeir fengu helminginn af lífeyrisréttindum alþingismannsins fyrrverandi og svo bættust 20% ofan á það. Þessu var breytt þannig að 20% voru strikuð út og þar að auki kom inn nýtt ákvæði sem var þannig að ef eftirlifandi makinn hafði aðrar launatekjur skertist lífeyririnn um þriðjunginn af því sem launatekjurnar voru umfram lífeyrisréttindin, ef ég man þetta rétt. Það voru tvær skerðingar þannig að í heildina var um að ræða mjög mikla skerðingu á makalífeyrinum sem er varla svipur hjá sjón á eftir.