136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Eftirlaunalögin frá 2003 hafa lengi verið eins og þungur baggi á Alþingi. Það frumvarp sem við ræðum hér er sorgleg tilraun Samfylkingarinnar til að breiða yfir þá staðreynd að hún er að svíkja eitt stærsta kosningaloforð sitt, að fella úr gildi það sem ég og fleiri þingmenn höfum nefnt og hefur verið kallað „eftirlaunaósóminn“ frá árinu 2003. Það hefur svolítið verið kallað eftir því og við söknum þingmanna Samfylkingarinnar í salnum í kvöld, það sést bara ekkert til þeirra. Ég ætla því að leyfa röddum þeirra að heyrast aðeins eða hverjar skoðanir þeirra á þessum eftirlaunaósóma hafa verið.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í grein í Morgunblaðinu fyrir rétt rúmum mánuði síðan, með leyfi forseta:

„Ekkert er annað að gera en afnema þau forréttindi sem veitt voru í árslok 2003 skilyrðislaust og án bóta.“

Það var svo hv. varaþingmaður Samfylkingarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, sem lagði fram frumvarp á síðasta þingi og flutningsmenn með henni voru hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson og Róbert Marshall. Í umræðunni þá var ekki að sjá að þingmenn Samfylkingarinnar hefðu gleymt því hvað umræðustjórnmál þýða því að þeir höfðu margt og mikið að segja og ég mundi gjarnan vilja fá að lesa það. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði þá, með leyfi forseta:

„Ég trúi því og treysti að við náum á þessu þingi samstöðu um það á hinu háa Alþingi að færa okkur aftur í rétta átt, fara í þá átt að búa til eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem hlýtur að vera hið eðlilega ástand. Það er fullkomlega óásættanlegt að löggjafinn hafi um það forgöngu að skerast úr leik í þessu efni. Ég held að það væru líka gríðarlega góð og jákvæð skilaboð til aðila vinnumarkaðarins nú þegar kjarasamningar fara í hönd að við sendum út þau skilaboð að við ætlum ekki að slíta í sundur friðinn á íslenskum vinnumarkaði til lengri tíma litið.“

Þetta er náttúrlega sérstaklega áhugavert í ljósi þess að ég held að það ríki enginn friður í dag á milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson sagði í sömu umræðu:

„Þegar umrædd lög voru sett á sínum tíma var mikið um þau fjallað og þau eru líklega ein af stóru málunum sem hafa verið í þjóðmálaumræðunni. Ég get sagt að sjaldan hef ég fengið jafnmikla hvatningu til að taka eitt einstakt mál upp við þingheim og þetta tiltekna mál. Því er fagnaðarefni að geta verið í þeim hópi sem fer fram með þetta mál undir forustu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur en við stjórnarskiptin sem urðu á Alþingi eftir síðustu kosningar hafa líka hugsanlega skapast hér önnur tækifæri til að fara í þetta mál.“

Við sjáum þessi önnur tækifæri nú í dag.

Og áfram segir hv. þm. Gunnar Svavarsson, með leyfi forseta:

„Ég vil í sjálfu sér ekki lengja umræðuna um þetta, umræðan hefur verið tekin og vissulega ákveðin prinsippumræða. En eins og hér kemur fram er markmiðið með flutningi frumvarpsins að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi. Þannig halda þeir þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér en eftir gildistöku laganna gilda almennar reglur um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna um aðra en forseta Íslands.“

Það er greinilegt á því frumvarpi sem við fjöllum um í kvöld að prinsipp vilja gleymast ansi hratt, alla vega þegar maður er í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Síðan vil ég aðeins minnast á það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði, sjálfur þingflokksformaður Samfylkingarinnar ef einhver skyldi hafa gleymt því: „Lykilatriðið er að allir séu jafnir og það sé eitt lífeyrissjóðakerfi fyrir alla landsmenn. Um það snýst þetta mál.“

Við sjáum árangurinn af því í kvöld. Það sem menn töluðu um var að afnema ætti sérréttindi þingmanna og þingmenn ættu að vera með sömu lífeyrisréttindi og aðrir opinberir starfsmenn. Út á það gekk frumvarp hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og það var það sem menn töluðu um að þyrfti að gera til þess að leiðrétta eftirlaunaósómann. Hins vegar virðast allir hafa gleymt því að það voru ýmis önnur sérréttindi í þeim pakka sem samið var um á sínum tíma, svo sem eins og það að formenn flokka ættu að fá hærri launakjör, en það virðist enginn ræða það sem hluta af þessari umræðu um sérréttindi.

Ég fékk spurningu áðan frá hv. þm. Pétri H. Blöndal þar sem hann spurði hvort ég væri tilbúin að tryggja það að þingmenn nytu sömu kjara og almennir launamenn úti á almennum vinnumarkaði. (PHB: Það verði heimilt.) Það verði heimilt. Ég mundi vilja svara því að ég teldi eðlilegt að fyrsta skrefið í þá átt væri að við viðurkenndum það fúslega að alþingismenn séu opinberir starfsmenn og við eigum að njóta sömu kjara og aðrir opinberir starfsmenn.

Ég vil hins vegar í framhaldi af því leggja áherslu á að ég tel mjög eðlilegt, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á í sinni ræðu, að síðan verði kjör opinberra starfsmanna jöfnuð við kjör starfsmanna á almennum markaði. Ég tel ekkert eðlilegt við það að lífeyriskjör starfsmanna á almennum markaði eigi að vera lægri en opinberra starfsmanna heldur eigi menn að geta mæst á miðri leið. Það var einmitt það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á að væri að gerast, að lífeyriskjörin hefðu verið að batna, fyrir utan kannski það mikla áfall sem við göngum í gegnum núna varðandi lífeyrissjóðina sjálfa.

Ég efast ekki um að hv. þm. Pétur Blöndal hefur athugasemdir við þetta viðhorf mitt en ég tel að þetta væri eðlilegt fyrsta skref og í framhaldinu yrðu kjör opinberra starfsmanna jöfnuð við kjör starfsmanna á almennum vinnumarkaði.