136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn þá samdi ég frumvarp sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti árið 1969, minnir mig, um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það hefur því þegar komið fram og er dálítið langt síðan.

Varðandi það að þingmenn séu opinberir starfsmenn, ég mótmæli því harðlega. Vegna þrískiptingar valdsins erum við hluti af löggjafarvaldinu en ekki framkvæmdarvaldinu. Opinberir starfsmenn eru allir starfsmenn framkvæmdarvaldsins. Ég mundi jafnvel vilja að Alþingi væri með sérfjárlög fyrir sig til að greiða þingmönnum laun.

Ef menn fara aftur í söguna frá því að Alþingi var stofnað þá voru þingmenn ekki opinberir starfsmenn. Þingmenn hafa ekki verið opinberir starfsmenn, þeir eru kosnir fulltrúar. Ég legg mikla áherslu á þetta og ég tel að þingmenn eigi að deila kjörum með þeim sem sendu þá á þing.