136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er sérstakur kapítuli í þingsögunni. Nú hefur hann tekið að sér það hlutverk að tala máli oddvita ríkisstjórnarinnar fyrir sérréttindum í lífeyrismálum og er að reyna að réttlæta gjörðir þeirra. Staðreyndin er sú að það frumvarp sem núna liggur fyrir þinginu skapar meiri réttindi en gerist almennt í lífeyriskerfinu, meira en gerist almennt hjá starfsmönnum ríkis og bæja sem eiga aðild annaðhvort að lífeyrissjóði sveitarfélaga eða A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ávinnslan þar er 1,9%. Ávinnslan samkvæmt því frumvarpi fyrir þingmenn sem hér liggur fyrir er 2,375%. Einnig er kveðið á um önnur réttindi í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.)

Ef þetta eru sömu réttindi hvað er það þá sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson (Gripið fram í.) hefur á móti því að þingmenn, ráðherrar og svokallaðir æðstu embættismenn ríkisins fari inn í lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna? (Gripið fram í.) Hins vegar er þessi málflutningur sem við urðum hér vitni að, þessar tilraunir íhaldsins og afturhaldsafla sem nú hafa fengið liðsinni hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, til að reka fleyg inn í launþegahreyfinguna. (Gripið fram í.) Um þessi lífeyrisréttindi og um þessa ályktun sem hann vitnar til og auglýsingu (Gripið fram í.) er fullkomin samstaða. Ég veit ekki hvað það er sem vakir fyrir hv. þingmanni að reyna að reka fleyg (Gripið fram í.) inn í verkalýðshreyfinguna. (Gripið fram í.)