136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er eflaust hægt að læra margt af Kristni H. Gunnarssyni en við lærum það ekki að fara rétt með sannleikann, það lærum við ekki af honum.

Það er svo að skilja á hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að verið sé að hlunnfara hann alveg sérstaklega. Ef svo er, ef verið er að hlunnfara þingmenn, (Gripið fram í.) ef verið er að hlunnfara ráðherra, ef verið er að hlunnfara æðstu embættismenn landsins og þeir búa við lakari kjör en almennt gerist á markaði eða hjá almennum starfsmönnum ríkisins, hjá sjúkraliðanum, hjá hjúkrunarfræðingnum eða hjá slökkviliðsmanninum, hvers vegna í ósköpunum er hv. þingmaður svona andvígur því að fara inn í sömu sjóði og þetta fólk býr við?

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom hér og ræddi um félagslega aðkomu að lífeyrisjóðunum, að menn ættu að hafa einstaklingsbundið val. Ég vil verja þessa félagslegu aðkomu að lífeyrissjóðunum vegna þess að á grundvelli hennar hefur tekist að byggja upp öflugt lífeyriskerfi á landinu.

Hvers vegna eru samtök úti í bæ að blanda sér í þingmál? Hvers vegna eru skattborgararnir að hafa áhyggjur af því hvað þingmenn og ráðherrar ráðskast með um eigin kjör, (Gripið fram í.) er það ekki ósvífni af þeirra hálfu? Þetta er það sem hv. þingmaður er að segja, þetta er það sem hv. gagnrýnendur míns málflutnings eru að segja.

Nú ofbýður þessum þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri hana verulega reiða á undanförnum dögum, ekki vegna þess að verið er að skerða öryrkja, ekki vegna þess að verið er að skerða aldraða, ekki vegna þess að verið er að skera niður við Heilsugæsluna í Reykjavík um fjórðu hverju krónu, 24%. Það hefur ekki heyrst orð úr horni þar.

Nei, hennar eigin kjör eru í húfi og þá verðum við vör við reiðina.