136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri hér til þess að kalla eftir stefnumörkun stjórnarflokkanna varðandi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þannig er að frá upphafi hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins verið olnbogabarn í heilbrigðiskerfinu. Allt frá 1977 hefur heilsugæslan hér búið við sambýli við sjálfstætt starfandi heimilislækna og hefur notið takmarkaðs pólitísks skilnings. Það hefur því miður síður en svo batnað á undanförnum árum. Þessu kerfi hefur ekki tekist að breyta þrátt fyrir að mjög góð reynsla hafi verið annars staðar á landinu af samþættri heilsugæsluþjónustu.

Um síðustu áramót skipaði hæstv. heilbrigðisráðherra nefnd til þess að endurskoða starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þrátt fyrir að margoft hafi verið kallað eftir niðurstöðum þeirrar nefndar sem átti að liggja fyrir í apríl sl. hafa engin svör borist. Fyrir rúmu ári síðan lá líka fyrir könnun á þjónustu heilsugæslunnar en það hefur verið leyniplagg og verið geymt og falið ofan í skúffum hjá hæstv. heilbrigðisráðherra allan þann tíma.

Nú er svo komið að uppsafnaður halli heilsugæslunnar á þessu ári er 670 millj. kr. og 450 millj. kr. á að veita á fjárauka til þess að lækka hann. En á fjárlögum komandi árs á að skera niður fjórðu hverju krónu úr Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 1.020 millj. kr. á að taka af heilsugæslunni.

Ég hlýt að spyrja hér og beini máli mínu til hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem er varaformaður heilbrigðisnefndar: Hvernig í ósköpunum ætlið þið að láta Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins reka sig og þjónusta 190 þúsund manns fyrir þrjár krónur í staðinn fyrir fjórar á þessu ári?