136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:05]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki sett mig í spor hv. þingmanns þegar hún álítur að það séu einhverjir leynifundir og leyniplögg þegar haldnir eru opnir fundir um vinnuna sem lýtur að heilsugæslunni. Ekki er verið að fela neitt fyrir hv. þingmanni. (Gripið fram í.) Ekkert er falið fyrir starfsmönnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þetta er bara rangt. (Gripið fram í.)

Ég segi að við skulum ræða þessi mál við fyrsta tækifæri á vettvangi heilbrigðisnefndar, þar sem ég hef nú þann heiður að deila sæti með hv. þingmanni, það stendur ekki á okkur. (Gripið fram í.) Ég hlýt að geta gert þá kröfu til hv. þingmanna að þeir fjalli málefnalega um þessi atriði. Ég vona þó og veit að allir þingmenn í salnum vilja forgangsraða í þágu heilsugæslunnar, þetta er afar mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfi okkar. Þetta er fyrsti viðkomustaður okkar og lykillinn að því að reyna að ná fram hagræðingu í kerfinu að við höfum hér öfluga heilsugæslu og það er markmið stjórnarflokkanna og það sést á verkum okkar. Við reynum að forgangsraða í þágu heilsugæslu.

Auðvitað vitum við að það er ekki okkur í hag eða heilbrigðiskerfinu eða almenningi að vega að Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með einhverjum óeðlilegum hætti. Menn hafa einmitt talað um að miðstýringin í því kerfi hafi verið of mikil. En menn mega ekki tapa sér algjörlega í samsærisgírnum eða í þeirri kreddu að ekkert megi skoða eða (Gripið fram í.) ekki megi velta upp steinum þegar kemur að hugsanlegum breytingum. Menn mega ekki vera svo forpokaðir í íhaldssemi sinni og forsjárhyggju að ekki megi velta (Gripið fram í.) fyrir sér breytingum. Ég átta mig ekki stundum á (Forseti hringir.) málflutningi Vinstri grænna þar sem menn velta aldrei fyrir sér hvort „status quo“ sé endilega heppilegasta ástandið. (Gripið fram í.)

Ég fagna því að fá tækifæri til að slá á þessar draugasögur sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) kemur iðulega fram með þegar kemur að málefnum heilbrigðiskerfisins. (Forseti hringir.) Förum bara yfir þetta mál, það er enginn að fela neitt og það veit (Forseti hringir.) hv. þingmaður.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að eiga ekki samtöl hér í salnum við þá sem eru í ræðustól.)