136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ganga þvílíkar svívirðingar á báða bóga að maður þorir varla að hætta sér út á þessa hálu braut sem við erum komin á hér í pontunni.

Rétt er hjá hv. þm. Pétri Blöndal að þingmenn eru ekki fulltrúar framkvæmdarvaldsins, alls ekki, og ég held því ekki fram. En af hverju er ekki langeinfaldast og skiljanlegast fyrir alla að við förum inn í lífeyrissjóðsdeild A hjá LSR? (Gripið fram í.) Þar er réttindaávinnslan 1,9% og iðgjaldið 4%, en í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er iðgjaldið 5% og réttindaávinnslan 2,375%.

Það er rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að þetta stendur á pari, þetta eru sambærilegar tölur, þær eru bara aðeins hærri í frumvarpi ríkisstjórnarinnar en hjá LSR A-deild. (Gripið fram í.) Af hverju förum við ekki í þá deild og borgum það inn sem þar er krafist, sem eru 4%, og fáum þau réttindi sem þar eru gefin, sem eru 1,9%, og tökum öll réttindi eins og þar eru þannig að allir skilji út á hvað þetta gengur?

Af hverju er sú leið ekki farin? Ég spyr hv. fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna að því. Líklega svarið er — og það er heita kartaflan í málinu — að ef það er gert mundi kjararáð líklega hækka kaup þingmanna. Í 4. mgr. 9. gr. laga um kjararáð stendur að kjararáð eigi að taka tillit til lífeyrisréttinda þegar það metur kjör, þannig að afleiðingin yrði líklega sú að kaup þingmanna hækkaði og það er væntanlega það sem er svo erfitt að ræða. Ég held að menn reyni að koma sér hjá því, virðulegur forseti, með því að fara þessa einföldu leið en ég held að menn verði að ræða um það, þetta verður bara að vera þannig.