136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:14]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg í umræðu um eftirlaunamál og vil taka fram að árið 2003 studdi ég ekki frumvarpið sem hér er til umræðu.

Mér finnst samt mikilvægt að sögunni sé til haga haldið og á það minnt að á þeim tíma sem frumvarpið var flutt var haft samráð við alla formenn stjórnarandstöðuflokkanna, þar á meðal formann Vinstri grænna, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Á þeim tíma voru líka flutningsmenn úr öllum flokkum, þar á meðal úr þingflokki Vinstri grænna, Þuríður Backman, ef ég man það rétt.

Ég held að rétt sé, virðulegi forseti, að þessu sé til haga haldið þegar nánast er verið að draga upp þá mynd að hér séu þingmenn misháir á hinum siðferðilega stiga. Mér þykir þetta afar miður og verð að segja, virðulegi forseti, að miðað við þá umræðu sem hér fer fram er vitaskuld eina vitið, og ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að allir fari í einn lífeyrissjóð og starfsmönnum sé ekki mismunað, hvort sem þeir eru hjá ríkinu eða á almennum vinnumarkaði. Það er hið eina raunverulega réttlæti. En ég hef ekki heyrt hv. þm. Ögmund Jónasson tala um þetta, það hef ég ekki heyrt.

Mér finnst mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að sögunni sé til haga haldið og eins á það minnt þegar Framsóknarflokkurinn, sem þá var í ríkisstjórn og flutti málið, mætir hér allt í einu með splunkunýja húfu og er kominn á einhverja allt aðra skoðun og vill halda henni sérstaklega til haga. Mér finnst alveg lágmark, virðulegi forseti, að þegar hv. þingmenn koma hérna að þeir segi satt og segi frá því hvernig sagan var en mála ekki upp einhverja mynd af því að það hentar í núinu. (Gripið fram í.)