136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar erum við að ræða hér gríðarlega stórt mál. Í 1. umr. málsins kallaði ég eftir svörum frá framkvæmdarvaldinu, frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þeir komu hér tveir, þrír upp og útskýrðu sinn hlut en nú er málið komið til þingsins. Við erum hér að tala um frumvarp sem kemur ofan á kolsvart fjárlagafrumvarp þar sem vegið er að undirstöðu samfélagsins, velferðarþjónustunni, menntamálum og jafnframt að einstökum hópum. Það bætir vissulega gráu ofan á svart þannig að ég beini því til hæstv. forseta að formenn þeirra nefnda sem um þetta mál hafa fjallað verði kallaðir í þingsalinn til umræðna. Ég bið um það.

(Forseti (EMS): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að verða við óskum hv. þingmanns.)

Ég þakka fyrir það, hæstv. forseti.

Ég vil vekja athygli á því að formaður efnahags- og skattanefndar er viðstaddur umræðuna en ég vil að þeir formenn sem veittu umsögn um frumvarpið sem við ræðum hér mæti í salinn og standi fyrir máli sínu. Það eru einungis stjórnarandstæðingar á mælendaskrá. Ég krefst þess að formenn þessara nefnda komi í þessa umræðu, að fulltrúar Samfylkingarinnar komi í umræðuna því að ég ætla að bera upp spurningar gagnvart formönnum þessara nefnda.

Þó að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands líti á Alþingi Íslendinga sem sjálfsafgreiðslustofnun, stofnun sem stimpla eigi pappírana sem koma frá ríkisstjórninni lít ég ekki svo á. Hv. stjórnarliðar mega ekki líta þannig á að hér eigi málin að fara nærri því umræðulaust í gegn. Ég kalla því enn og aftur eftir því að stjórnarliðar komi í salinn og þá einkum formenn þeirra nefnda sem um málið hafa fjallað og sem skilað hafa áliti eða umsögn vegna þessa frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Það er nefnilega merkileg forgangsröðun sem birtist í þessu frumvarpi. Hér er verið að auka álögur á sjúklinga um einar 360 milljónir. Hér er verið að velta eða taka tekjur af bændum upp á 800 milljónir. Hér er verið að stórskerða kjör aldraðra og öryrkja og við hljótum að auglýsa eftir samfylkingarmönnum í umræðuna sem töluðu hvað heitast um að kjör þessara hópa þyrfti að bæta en ekki skerða. Síðan er verið að ráðast að barnafólki og húseigendum í landinu. Ég ætla að fara nánar ofan í það, hæstv. forseti, með hvaða hætti ríkisstjórnin vegur að þessum hópum ofan á kolsvart fjárlagafrumvarp sem birtist okkur fyrir nokkru síðan.

Mig langar, hæstv. forseti, að taka undir með hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur sem segir í minnihlutaáliti sínu í félags- og tryggingamálanefnd fyrir hönd Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Þá er tíminn sem gefinn er til afgreiðslu allra þeirra niðurskurðartillagna sem varða beint rekstur fjölskyldna í landinu fullkomlega óásættanlegur þar sem hver neyðarlögin reka önnur. Niðurskurðarhnífnum virðist því í besta falli ómarkvisst beitt án tillits til aðstæðna mismunandi hópa samfélagsins.“

Þetta eru orð að sönnu, hæstv. forseti. Í ljósi þess hversu gríðarlegar álögur verið er að leggja hér á sjúklinga, skerða kjör aldraðra og öryrkja, bænda, barnafólks og húseigenda, væri þá ekki rétt að stjórnarliðar væru viðstaddir þessa umræðu — ég tek það enn og aftur fram að hv. formaður efnahags- og skattanefndar er það, en að a.m.k. formenn fagnefndanna sem veittu umsögn um þetta stóra mál sem er upp á 17–18 milljarða kr. sem snertir hagsmuni almennings, séu viðstaddir umræðuna og komi sér á mælendaskrá? Eða á að þagga þetta mál niður með þeim hætti að hér eigi stjórnarandstaðan ein að tala? Nei, takk fyrir, hæstv. forseti.

Ég lýsi eftir Samfylkingunni í þessa umræðu og ég vil að hv. þingmenn og forsvarsmenn Samfylkingarinnar komi sér á mælendaskrá og geri grein fyrir sínu máli því að það voru nú nægjanleg gífuryrðin hjá þessum ágætu stjórnarliðum einungis fyrir nokkrum vikum síðan. Hver er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessu? Jú, það er að skera niður þar sem síst skyldi.

Hæstv. forseti,. Ég ætla að fara ofan í einstaka þætti og gera grein fyrir áliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem ég, fulltrúi Framsóknarflokksins, byggi á tillögum og áliti minna félaga í hinum ýmsu fagnefndum þingsins.

Mig langar að byrja á málefnum sjúklinga. Í þessu frumvarpi hér er gert ráð fyrir því að taka upp nýtt gjald á heilbrigðisstofnunum landsins, nýtt innlagnargjald. Eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði í 1. umr. um málið væri hér einungis verið að samræma gjaldtöku í kerfinu því að þeir sem ekki hafa greitt mundu nú greiða eins og allir aðrir. Gert er ráð fyrir að það muni gefa ríkissjóði einar 360 milljónir aukalega í tekjur og þetta munu sjúklingar þessa lands greiða aukalega í ríkissjóð.

Ef þetta væri nú það eina sem sjúklingar þyrftu að greiða í tengslum við þau fjárlög sem við ræðum hér, oftar en ekki í skjóli nætur, vil ég benda á að ríkisstjórnin, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, hefur boðað hækkun á lyfjakostnaði til sjúklinga sem nemur 700–800 millj. kr. Ef við tökum aðeins þessi tvö atriði er hér verið að ræða um skatt á sjúklinga á annan milljarð kr., bara í þessum tveimur atriðum. Enn og aftur, hæstv. forseti, kalla ég eftir því að formenn fagnefndanna komi í þingsal og ég spyr hæstv. forseta hvort við megum vænta þeirra við þessa umræðu á meðan ég flyt mál mitt. Ég hef spurningar til hv. þingmanna. Þetta mál er hjá þinginu og það er vanvirða við það ef hv. þingmenn koma ekki og standa fyrir máli sínu.

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram að eins og áður hefur komið fram hefur forseti gert ráðstafanir til þess að ósk hv. þingmanns verði komið á framfæri við hv. þingmenn. Verið er að vinna í því máli þannig að við vonum að a.m.k. einhverjir þeir sem hafa möguleika á muni láta sjá sig hér áður en hv. þingmaður lýkur máli sínu.)

Hæstv. forseti. Ég mun halda máli mínu áfram í einar fimm mínútur en ef stjórnarliðar fara þá ekki að sýna sig í salnum hljótum við að krefjast þess að þessari umræðu verði frestað því að það gengur hér á ræðutíma minn og ég ætla að spyrja formenn fagnefndanna ákveðinna spurninga og þarf náttúrlega minn tíma til þess.

Ég ætla að halda áfram að ræða málefni sjúklinga þar sem fulltrúar BSRB, Öryrkjabandalagsins og Alþýðusambands Íslands hafa ályktað mjög harðlega gegn þessum álögum, gjaldtöku á hendur sjúklingum. Fulltrúar Öryrkjabandalagsins telja gjaldtökuna verulega íþyngjandi fyrir skjólstæðinga sína, til viðbótar við launalækkun, atvinnumissi og annan niðurskurð í velferðarþjónustunni.

Við eigum eftir að fara yfir það, vonandi með hv. formanni félagsmálanefndar, hvaða áhrif það frumvarp sem hér liggur fyrir mun hafa á kjör aldraðra og öryrkja. Hér er verið að ráðast mjög harkalega að velferðarkerfinu, að heilbrigðisþjónustunni, auknar álögur á sjúklinga til viðbótar stórfelldum niðurskurði í heilbrigðisþjónustu, hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og lykilheilbrigðisstofnunum landsins.

Hvernig eiga þessar stofnanir að standa undir myndarlegri þjónustu við skjólstæðinga sína, sjúklinga, ef framlögin eru skert jafnmikið og raun ber vitni? Ég segi eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan: Ég sé þetta dæmi einfaldlega ekki ganga upp nema með einhverju stórfelldu skipbroti í íslensku samfélagi. Það er mikilvægt að við horfum á þetta mál úr víðu samhengi heildrænt því að niðurskurðurinn á velferðarþjónustunni og hjá þeim einstaklingum sem þurfa að þiggja þjónustuna er svo mikill að maður getur ekki orða bundist.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið að fara yfir málefni sjúklinga en ég hefði kosið að hv. þm. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, væri hér í salnum til þess að hlýða á mál mitt. (Forseti hringir.)

(Forseti (EMS): Forseti vill taka fram vegna orða hv. þingmanns að hv. þm. Ásta Möller hefur fjarvist í dag.)

En varaformaður nefndarinnar þá?

(Forseti (EMS): Forseti kannar málið.)

Í öðru lagi er niðurskurðarhnífnum næst beint gegn bændum. Ég hef ekki heyrt þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hafa talið sig vera talsmenn bænda, tala mikið í þeirri umræðu þegar verið er að skera niður undirritaða samninga um að talið er 800 milljónir á næsta ári. Eru bændur sú stétt sem má við því að kjör þeirra séu skert um 800 milljónir? Ég segi nei. Bændastéttin er mikilvæg stétt sem hefur aldeilis sannað gildi sitt á undanförnum mánuðum. Það sem við höfum talað fyrir hefur sannast, þ.e. að það þurfi að tryggja innlenda matvælaframleiðslu, standa vörð um fæðuöryggi þjóðarinnar. Bændur hafa verið okkur mjög mikilvægir á þessum síðustu og verstu tímum og innlend landbúnaðarframleiðsla hefur haldið aftur af annars gríðarlega mikilli verðbólgu sem hér um ræðir.

Ég spyr þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvort þeir séu stoltir af því að tekjur bænda séu skertar um 800 milljónir eins og hér er lagt til. Margir bændur hafa byggt býli sín upp myndarlega á undanförnum árum, hafa lagst í fjárfestingar og hafa staðið í þeirri trú gagnvart búvörusamningum að ríkisstjórnin og ríkisvaldið mundi standa við skuldbindingar sínar. Margir hafa gert framtíðaráform langt fram í tímann í skjóli slíkra samninga. Nú ákveða hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ef þetta verður samþykkt, og Samfylkingar, sem reyndar kemur ekki á óvart, að kjör bændastéttarinnar verði skert með þessum hætti.

Hvernig eiga bændur landsins að taka þessum skilaboðum og þessari skerðingu? Jú, þeir verða, þeir sem geta það á annað borð, að velta þessu út í verðlagið og því mun verð á íslenskum landbúnaðarafurðum hækka. Hvað þýðir það á mæltu máli? Jú, sú hækkun mun fara út í vísitöluna, sem mun hækka enn meira þá óðaverðbólgu sem nú þegar er í gangi.

Ég spurði hæstv. landbúnaðarráðherra í 1. umr. um þetta mál hvort ríkisstjórnarflokkarnir væru búnir að gera sér í hugarlund hvaða áhrif þetta hefði á verðbólguna og lán íslenskra heimila. Ég held að við vitum það öll að íslensk heimili eru skuldug og fólk sér lánin vaxa mánaðamóta á milli með gríðarlegum hraða. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar mun leiða til þess að verðbólgan verður enn meiri. Því spyr ég í ljósi þess að ríkisstjórnin auglýsti á heilsíðum stærstu blaða landsins í nóvembermánuði um aðgerðir til bjargar heimilunum, hvort þetta sé aðgerð til bjargar íslenskum heimilum eða íslenskum landbúnaði. Nei, að sjálfsögðu ekki. Forgangsröðunin í því frumvarpi sem hér um ræðir er með slíkum eindæmum að maður trúir því varla, hæstv. forseti.

Í þriðja lagi vil ég fjalla um kjör aldraðra og öryrkja. Við áttum nokkuð hörð skoðanaskipti, ég og hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, um kjör þessara hópa þar sem fullyrt var í okkar eyru að aldrei hefði verið jafn vel staðið að þessum málaflokkum. Þó er það staðfest að ríkisstjórnin ákvað í kjölfar síðustu kjarasamninga að lækka viðmið á kjarasamningum gagnvart þeim hópum um 3,6 milljarða, lækka viðmiðið sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði á sínum tíma. Þar gat nú ríkissjóður sparað sér heila 3,6 milljarða og þar mátti skera og þar mátti spara.

Í ofanálag er hér lagt til að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3,9 milljarða til viðbótar eða 4,9 milljarða. Í ljósi þess á hvers lags leifturhraða málið hefur farið í gegnum nefndir Alþingis höfum við nefnilega ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um hvort með frumvarpinu sé verið að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3,9 milljarða eða 4,9 milljarða. Er það ekki nauðsynlegt, hæstv. forseti, þar sem hér er verið að ræða um 1.000 milljónir króna gagnvart þessum hópi að við fáum úr því skorið í umræðunni hvort niðurskurðurinn sé 4,9 milljarðar eða 3,9 milljarðar? Eða skiptir það stjórnarliða kannski ekki svo miklu máli? Þetta er jú bara afgreiðslustofnun, við höfum tekið við fyrirmælum frá ríkisstjórninni, segja hv. stjórnarliðar trúlega, og við skulum bara drífa þetta í gegnum þingið. Enda hefur þetta mál fengið undraskamman tíma í meðförum Alþingis og við teljum það nærri því frekar í klukkustundum en í dögum. Við erum svo sem ekkert óvön því hér á hv. Alþingi á þessum síðustu og verstu tímum að mál gangi í gegn með ótrúlegum hraða.

Þetta eru nú samræðustjórnmálin sem Samfylkingin boðaði í aðdraganda síðustu kosninga en þetta eru ansi snörp skoðanaskipti þykir mér. Menn eru ekki með neinar vífilengjur hjá Samfylkingunni í þessum málum, það á bara að hespa þessu af. Ekki eru þingmenn Samfylkingarinnar mjög áberandi á mælendaskránni. Þegar ég fór í pontu var enginn stjórnarliði kominn á mælendaskrá. Nú er mættur í salinn varaformaður Samfylkingarinnar og hefur gefið til kynna að hann sé kominn á mælendaskrá og er það vel. (Gripið fram í.) Í andsvar? Ég óska ekki eftir bara andsvörum, ég óska eftir því að varaformaður Samfylkingarinnar fari í ræðu og geri grein fyrir stefnu flokks síns hvað varðar forgangsröðun í tengslum við þessa fjárlagagerð, ég bara óska eftir því. Við munum ekki klára þessa umræðu ef Samfylkingin ætlar sér ekki í efnislega umræðu um þetta mál. Halda menn að það sé bara hægt að humma þessa umræðu fram af sér og vera ekki í þingsalnum? Nei, takk fyrir. Stjórnarandstaðan mun ekki láta stjórnmálaflokka eins og Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn fara umræðulaust í gegnum þessi mál. Við hljótum að krefjast þess að forsvarsmenn stjórnarflokkanna komi hér og standi fyrir máli sínu.

Hæstv. forseti. Einungis á þessu ári er þar af leiðandi með þeim tveimur aðgerðum gagnvart öldruðum og öryrkjum sem hér um ræðir búið að skerða kjör þeirra um 7,5–8,5 milljarða kr. Stjórnarliðar koma reyndar hér upp og mótmæla þessu en þeir eru dálítið einir í heiminum í þeirri umræðu því að Alþýðusamband Íslands og samtök aldraðra og öryrkja hafa bréflega mótmælt þessum niðurskurði harðlega. Við hljótum líka að spyrja eftir því hvaða samráð hefur verið haft við þá aðila í tengslum við þessar breytingar. Ég held að það samráð sé núll, ekki neitt, rétt eins og þegar viðmiðið gagnvart öldruðum og öryrkjum var lækkað um 3,6 milljarða, þá kallaði hæstv. félagsmálaráðherra þá aðila á fund sinn og tilkynnti þeim um þá ákvörðun. Þetta er kjarasamningur aldraðra og öryrkja. Það eru ekki viðræður sem fara fram um áherslur eða annað slíkt. Nei, þessum hópi er einfaldlega tilkynnt hvað ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefur ákveðið í kjaramálum þeirra.

Hæstv. forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í 1. umr. um þetta mál, að þessi ríkisstjórn, ólík þeirri síðustu, stæði vörð um barnabætur og vaxtabætur með nýju fjárlagafrumvarpi. Þar fór hæstv. ráðherra með ósannindi, helber ósannindi, því að það er verið að skerða barnabætur að raungildi um 10% og vaxtabætur að raungildi um 10%. Því til útskýringar vil ég segja að gert er ráð fyrir því að verðbólga á næsta ári verði 15% í forsendum fjárlaga, en í fjárlagafrumvarpinu er einungis gert ráð fyrir 5% hækkun á barnabótum og vaxtabótum. Hvað þýðir það, hæstv. forseti? 10% raunlækkun á barnabótum og vaxtabótum.

Er það nú svo að skuldug íslensk heimili og barnafólk í dag, sem margt hvert hefur misst vinnuna, þurfi á því að halda að þessir mikilvægu bótaflokkar séu skertir um heil 10% á milli ára? Er það forgangsröðun Samfylkingarinnar að ráðast að skuldugum íslenskum heimilum og barnafólki með þessum hætti? Við skulum telja upp þá hópa sem bera þetta frumvarp uppi þar sem verið er annaðhvort að auka gjaldtökur eða auka skattheimtu eða skerða bætur og kjör, við skulum telja þá upp. Við skulum hlusta á það hver forgangsröðun Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks er með þessu frumvarpi.

Í fyrsta lagi: Sjúklingar, 360 milljónir. Aldraðir og öryrkjar, tæpir 4 milljarðar eða 5, við eigum eftir að fá úr því skorið. Ég spyr varaformann Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson: Er verið að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3,9 milljarða eða 4,9 milljarða með þessu?

Það er verið að skerða kjör barnafólks með því að lækka barnabætur, þær lækka um heil 10% á milli ára. Það er líka verið að skerða kjör þeirra fjölskyldna sem þurfa að standa undir afborgunum af lánum sínum með því að skerða vaxtabæturnar.

Þetta er nú hin raunverulega ríkisstjórn sem við þurfum að standa andspænis á vettvangi Alþingis. Mér sýnist það, hæstv. forseti, þrátt fyrir áeggjan mína að stjórnarliðar og hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki mikla löngun til þess að sitja undir þessari umræðu, a.m.k. ekki hér í þingsalnum, fyrir utan hv. formann efnahags- og skattanefndar og varaformann Samfylkingarinnar og síðan náttúrlega hæstv. forseta sem er meðlimur í jafnaðarmannaflokki Íslands eins og Samfylkingin vill jú stundum kalla sig.

Ber þetta frumvarp merki þess að hér sé við völd jafnaðarmannaflokkur Íslands? Nei. Þetta mál ber þess merki að Samfylkingin hefur gjörsamlega snúið baki við þeim fyrirheitum og þeim loforðum sem sá ágæti flokkur gaf sjúklingum, öldruðum og öryrkjum, barnafólki og húsnæðiseigendum. Ég held að við séum ekki, hæstv. forseti, að tala um það fólk sem hefur hvað breiðustu bökin í samfélaginu í dag. Þar að auki er frumkvæðið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt með því að leggja það til að ekki verði staðið við gerða samninga gagnvart bændum upp á 800 millj. kr. Þar kemur stuðningur sjálfstæðismanna fram á borði gagnvart þeirri mikilvægu atvinnugrein sem íslenskur landbúnaður er.

En það eru ekki bara hagsmunir bænda sem liggja undir, vegna þess að bændur munu ekkert geta tekið á sig að öllu leyti þessa tekjuskerðingu. Nei, þá ræðum við aftur um barnafólkið, aldraða og öryrkja, sjúklinga og fleiri, en sú ákvörðun sjálfstæðismanna og samfylkingarmanna að hækka matvælaverð hér innan lands mun leiða til þess að afborganir af lánum munu stórhækka vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir kynda undir verðbólguna.

Í ofanálag við tillögurnar sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn leggja hér fram búa heimilin í landinu við 18% stýrivexti og um 20% verðbólgu. Ég spyr hv. stjórnarliða: Hvernig eiga íslensk heimili að geta staðið undir 20% verðbólgu og 18% stýrivöxtum, hækkandi álögum og minnkandi tekjum? Hvernig á þetta dæmi að ganga upp? Ég vil líka spyrja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þ.e. ef þeir koma meira í umræðuna: Hvernig á íslenskt atvinnulíf að geta staðið undir 18% stýrivöxtum? Hvergi í heiminum getur atvinnulíf staðið undir þessu. Í ljósi haftastefnunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin innleiddu í gjaldeyrismálum þjóðarinnar eru ekki haldbær rök fyrir því að hafa svo háa stýrivexti. Búið er að festa allt fjármagn inni í landinu, erlendir aðilar geta ekki tekið fjármagn sitt út úr landinu, en tilgangur hárra stýrivaxta er að laða fjármagn til landsins og halda því þar. Til hvers eru menn þá með 18% stýrivexti? Getur einhver svarað því?

Ég spyr líka þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hafa gumað sig af því að vera talsmenn atvinnulífsins, rétt eins og við framsóknarmenn teljum okkur vera: Hvernig á íslenskt atvinnulíf að standa undir þessum himinháu vöxtum? Hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki gert sér grein fyrir því að fyrirtæki segja fólki unnvörpum upp og stærstur hluti íslenskra fyrirtækja er tæknilega orðinn gjaldþrota? Vantar þá að við búum við 18% stýrivexti? Ég segi nei, hæstv. forseti.

Hér virðist því miður vera um að ræða gjörsamlega veruleikafirrta ríkisstjórn og stjórnmálaflokka, sem eru úr tengslum við það sem er að gerast í samfélaginu og furða sig væntanlega á vikulegum mótmælum við Austurvöll. Ég held að þessir hv. þingmenn verði að átta sig á hver heildarmyndin er. (PHB: Er eitthvað að gerast?) Er eitthvað að gerast, spyr hv. formaður efnahags- og skattanefndar. Já, það er sko eitthvað að gerast. Verið er að auka álögur á sjúklinga, aldraða og öryrkja, bændur, (PHB: Ég átti við hrunið.) og í raun og veru með ólíkindum — og ég ætla að fara að ljúka máli mínu — að verða vitni að því að ríkisstjórnin skuli nota niðurskurðarhnífinn á þessa þjóðfélagshópa, því staða þeirra var ekki góð fyrir.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, þannig að það hafi verið sagt, að með frumvarpinu er framlag til þjóðkirkjunnar skert um 300 millj. kr. og þær látnar renna í ríkissjóð. Ég vil minna hv. þingmenn á að 205 kirkjur í landinu eru friðaðar og þess vegna er viðhald þeirra kostnaðarsamara en ella, en trúlega með samþykkt þessa frumvarps munum við horfa upp á guðshúsin niðurnídd og er það enn eitt afbrigði af skelfilegri stjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins á síðustu missirum.

Allt ber að sama brunni. Þetta mál á að kýla í gegnum Alþingi Íslendinga, helst umræðulaust, a.m.k. ætla stjórnarliðar ekki að vera mjög áberandi í umræðunni — enda er þetta út frá sjónarhóli Samfylkingarinnar trúlega ekki fallið til vinsælda og því ekki gott að gera sér ferð hér upp. En við munum krefjast þess að stjórnarliðar setji sig á mælendaskrá og útskýri fyrir fólki, vegna þess að fólk heimtar svör: Hvernig stendur á því að byrjað er á sjúklingum, öldruðum og öryrkjum og öðrum hópum, bændum, sem mega ekki við því að farið sé þannig með þá?

Hæstv. forseti. Ég hef aldrei séð stjórnmálaflokk hvolfa stefnu sinni með eins dramatískum hætti og Samfylkingin hefur gert á einungis örfáum mánuðum. Þeir, sem lögðu trúnað sinn á þann flokk og studdu hann í síðustu alþingiskosningum, horfa upp á að flokkurinn hefur hvolft öllum helstu stefnumálum sínum. Ég er líka sannfærður um það, hæstv. forseti, — því að ég veit að bændur hafa almennt ekki borið mikið traust til Samfylkingarinnar — að þessar aðgerðir, sem eru í raun og veru aðför að íslenskum landbúnaði og íslenskum heimilum, verða ekki Sjálfstæðisflokknum til vegsauka vítt og breitt um landið. Síðast en ekki síst held ég að sá kostnaður sem velt er yfir á bændur með þessu muni á endanum lenda á íslenskum heimilum og lán þeirra muni í kjölfarið hækka, sem og verðbólgan.