136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar þurfi að setja sig á mælendaskrá til að útskýra fyrir þjóðinni hversu stórkostleg ríkisstjórnin er.

Hv. þingmaður benti akkúrat á það að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hér á landi er ein sú lægsta innan OECD-landanna. Þannig skildi Framsóknarflokkurinn við. (Gripið fram í.) Nú er verið að hækka kostnaðarhlutdeild sjúklinga og er það miður.

Þegar hv. þingmaður lýsir yfir hvers lags stórkostlegum aðgerðum ríkisstjórnin hefur staðið í gagnvart öldruðum og öryrkjum vil ég benda á að hagsmunasamtök öryrkja hafa lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Þegar hv. þingmaður segir að hæstv. félagsmálaráðherra hafi rassskellt þingmenn hér út og suður vil ég benda hv. þingmanni á að hagsmunasamtök aldraðra og öryrkja ásamt Alþýðusambandi Íslands rassskella ríkisstjórnina á Austurvelli um hverja einustu helgi. Ef hv. þingmaður heldur að ríkisstjórnin standi fyrir glæsilegum málum er það svo mikill reginmisskilningur að ég held að kippa verði hv. varaformanni Samfylkingarinnar inn í raunveruleikann, hvað raunverulega er að gerast í þessum málaflokkum.

Ég vil síðan benda hv. þingmanni á, þegar hann stærir sig af flottum árangri núverandi ríkisstjórnar í heilbrigðismálum, að fyrr í þessari viku var tilkynnt að geðheilbrigðisþjónusta á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, eina geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn á landsbyggðinni, hafi verið lögð niður. Hv. þingmaður vill kannski líka útskýra fyrir mér hver staða Landspítalans er, því ríkisstjórnin leggur til mikinn niðurskurð gagnvart þeirri stofnun. Ég hlakka til — eða í raun og veru kvíði því — að fjalla um hvernig ástandið verður orðið á fáeinum mánuðum þegar (Forseti hringir.) liðið verður á næsta ár. Þá verður myndin ekki svona glæsileg hjá varaformanni Samfylkingarinnar.