136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru margir vitrir núna eftir á, mjög margir. (ÁI: Eftir á?) Ég man ekki eftir því að nokkur einasti maður hafi sagt fyrir fram að allt bankakerfið færi á hausinn á einni viku. Ég man ekki til þess. (Gripið fram í: BJJ: Davíð.) Menn voru meira að segja ... Nei, ég trúi því ekki. (Gripið fram í.) Eftir á, já. Það er nefnilega þannig.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um 18% stýrivexti þá er ég alveg sammála því að þeir eru háir. En af hverju eru þeir háir? Vegna þess að menn eru að reyna að halda þessum jöklabréfum inni í landinu. Hvar mynduðust jöklabréfin? Hvenær mynduðust þau? Þau mynduðust þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru saman í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Þau duga greinilega ekki því að gengið heldur áfram að falla. Háu vextirnir eru til að reyna að halda þessum krónum inni. Það er trú þeirra manna sem þar véla um. Ég hef ekki þá trú að það haldi neitt.

Svo lendum við í einhverju. Auðvitað lentum við á ákveðnu áfalli út af gjaldþroti Lehman-bræðra. En undirstaðan var veik. Undirstaðan var mjög veik. Það myndaðist á undanförnum áratugum og ekki bara svona allt í einu núna síðustu tvo, þrjá mánuðina. (ÁÞS: Undir forustu Sjálfstæðisflokksins.) Forustu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar (ÁI: Í 17 ár.) og það voru allir á þeirri skoðun. Matsfyrirtækin mátu bankana mjög góða. Hagnaðurinn var gífurlega góður og svo framvegis. Þetta virtist allt vera í ljómanum. Fjármálaeftirlitið lagði blessun sína yfir allt saman. „Stresstestin“ sem þeir settu á dugðu og allt svoleiðis. (Gripið fram í.)

Það sem við lentum í var að Evrópusambandið kúgaði Íslendinga að beiðni Hollendinga og Breta. Evrópusambandið kúgaði Íslendinga til þess að ganga til samninga um Icesave-reikningana, sem við eigum ekki að borga og það er okkar vandi. Við lentum í stríði og við töpuðum því stríði. Það er þannig. Að heimta að ég viti heildarumfang vandans — þá væri ég búinn að semja. Það er bara ekki búið að semja um Icesave sem betur fer, segi ég, því að ég vil ná heildarsamningum við kröfuhafa og (Forseti hringir.) Icesave-reikningana.