136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við ræðum hér ráðstafanir í ríkisfjármálum, niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar upp á 45 milljarða kr. og hér liggja fyrir álit frá hinum ýmsu nefndum þingsins. Áður en gert var hádegishlé var ítrekað óskað eftir því að fulltrúar stjórnarflokkanna væru við þessa umræðu og sérstaklega þeir formenn nefnda sem þetta allt saman bitnar nú á og ekki síður ráðherrarnir sem málin heyra undir. Ég óska eftir því, frú forseti, að hér verði viðstaddir Birgir Ármannsson, formaður hv. allsherjarnefndar, Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður hv. heilbrigðisnefndar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður hv. samgöngunefndar og Guðbjartur Hannesson, (Forseti hringir.) formaður félags- og tryggingamálanefndar, auk þeirra ráðherra sem kunna að vera í húsinu.