136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:09]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er þetta fyrst og fremst spurningin um það hvaða alúð þeir sem bera mesta ábyrgð á stjórn landsins vilja leggja við þingstörfin og það sem hér er um að ræða. Hér er um að ræða ákaflega mikilvægt stjórnarfrumvarp sem sett er fram og verið er að taka á dagskrá með afbrigðum og þá mundi maður ætla að helstu forustumenn nefnda og ríkisstjórnarinnar sæju sóma sinn í að vera við umræðuna, a.m.k. meginhluta hennar. Það er ekki eins og þessi umræða taki marga daga. Ég tek undir þá kröfu að þeir verði tiltækir þannig að þeir séu við umræðuna og geti þá gert athugasemdir ef þeir telja ástæðu til.

Þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir byrjaði áðan að ræða þetta mál var enginn stuðningsmaður stjórnarinnar í þingsal (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið.