136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að hér eru komnir til þingstarfa a.m.k. þrír hv. formenn þingnefnda ásamt tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Við erum að ræða stjórnarfrumvarp um niðurskurð upp á 45 milljarða kr., svokallaðan bandorm. Þegar við ræddum málið við 1. umr. var það um miðja nótt og þá voru hér hvorki til andsvara né til þátttöku í umræðum hæstv. heilbrigðisráðherra né hv. formaður heilbrigðisnefndar Ásta Möller. Ég gagnrýndi það harðlega og leyfi mér að gera það enn þá. Ég vænti þess þó að hv. varaformaður heilbrigðisnefndar láti sjá sig hér áður en ég þarf að ljúka máli mínu tímans vegna.

Það er meira í þessu en heilbrigðismálin, sem ég ætla þó að gera að meginatriði í máli mínu, og þar vil ég byrja á skerðingunni gagnvart bændum, skerðingu sem hér er lögð til á umsömdum greiðslum til bænda. Í upphaflega fjárlagafrumvarpinu var miðað við það í samræmi við búvörusamning um sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkjuafurðir að ríkið greiddi ríflega 10 milljarða kr. til bænda. Samkvæmt samningi átti það að vera verðtryggt, taka mánaðarlegum breytingum og fylgja vísitölu neysluverðs. Þarna var sem sagt um vísitölutryggða samninga að ræða.

Ríkisstjórnin hefur nú með þessu frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er á þskj. 357 fundið sér leið til að setja þak á vísitöluhækkanir í þessum samningi. Við vitum hversu mikið er kallað eftir því úti í þjóðfélaginu að taka verðbólgukúfinn af fasteignaveðlánum núna þegar fasteignaverð er að lækka, verðbólgan æðir áfram og menn munu unnvörpum lenda í miklum vandræðum með heimili sín og íbúðarhúsnæði.

Því hefur verið svarað til að ekki væri hægt að gera þetta vegna þess að það stæðist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem er að finna í 72. gr. og það sé ekki heimilt vegna þessa ákvæðis að grípa inn í samninga með þessum hætti. Ríkisstjórnin hefur hér fundið leið til að fara inn í samninga sem eru bundnir nákvæmlega sömu skilyrðum og kröfum gagnvart 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Í greinargerð með frumvarpinu segir um 2. gr., sem fjallar um þessa 800 millj. kr. skerðingu á umsömdum vísitölutryggðum greiðslum til bænda, að ekki verði talið að þessi breyting stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar vegna þess sem þar segir, að skerðingin sé almenns eðlis, að hún sé bundin við takmarkaðan tíma og í þriðja lagi sé hún liður í viðamiklum aðhaldsráðstöfunum sem ríkinu er nauðugt að ráðast í vegna þeirra miklu efnahagsáfalla sem yfir þjóðina hafa dunið.

Ég vakti máls á því við 1. umr. þessa máls að bændur, sem þarna á að fara að skerða launin hjá, samningsbundin, vísitölutryggð laun, hafa auðvitað sínar fjárhagsskuldbindingar eins og aðrir og eru væntanlega flestir, ef ekki allir, með þung fasteignaveðlán sem munu taka breytingum í samræmi við vísitöluna á næsta ári. Það sem hér er lagt upp með er að laun þeirra verði skert á þann hátt að það verði miðað við 5,7% hámarkshækkun vísitölubóta á næsta ári en það er sú spá sem miðað var við þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október sl. Nú segja nýjustu spár frá Seðlabankanum að verðbólgan verði 14,2% þannig að skerðingin nemur þeim mun sem þarna er á milli.

Þarna hefur því myndast hjá bændum sérstakur nýr misgengishópur og þá er ég að vísa til Sigtúnshópsins frá 1983 þar sem vísitalan var að vísu algerlega tekin úr sambandi hvað launin varðaði — hér er verið að tala um að taka hana úr sambandi niður að 5,7 prósentustigum, það sé hámarkshækkun á árinu 2009 — og þess sem skuldbindingarnar, fasteignaveðlánin, munu hækka um á íbúðarhúsnæðinu sem er væntanlega einhvers staðar í kringum 14,2% ef það rætist sem Seðlabankinn leggur nú fram.

Mig langar í fyrsta lagi til að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hvaða áhrif þetta fyrirséða misgengi kunni að hafa á afkomu bænda á næsta ári. Í öðru lagi langar mig til að spyrja þennan hv. þingmann og þennan hæstv. ráðherra hvort þau telji ekki eðlilegt að skerða fasteignaveðlánin, verðbótaþáttinn í fasteignaveðlánunum, með sama hætti þannig að það verði jafnræði en ekki misgengi þarna á milli.

Til þess að ég fari nú enn lengra með spurninguna, virðulegi forseti, spyr ég þessa hv. þingmenn hvort þeir telji ekki að þarna hafi ríkisstjórnin fundið leið sem menn hafa kallað eftir úti í samfélaginu, m.a. á þúsund manna fundum á Austurvelli og í Háskólabíói og víðar, til að hægt sé að skera verðbólgukúfinn af verðtryggðum vísitölufasteignaveðlánum með þeim sama hætti og ríkisstjórnin er hér að gera í 2. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta, frú forseti, var það sem ég vildi segja um landbúnaðarmálin.

Ég hyggst hins vegar fjalla það sem eftir lifir ræðutíma míns hér um þá ósvinnu, sem ég vil kalla, að ætla sér að fara að selja inn á sjúkrahúsin hér á næsta ári. Það var svolítið skondið að sitja í hv. heilbrigðisnefnd, það var líklega í gærkvöldi, og fara yfir þessi mál með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis vegna þess að í frumvarpi ríkisstjórnar og greinargerð með því kemur skýrt fram að meiningin sé að taka upp sérstakt innritunargjald vegna innlagnar á sjúkrahús með ákveðnum undantekningum og afslætti fyrir tiltekna hópa.

Síðan segir, með leyfi forseta, í greinargerð með frumvarpinu, um X. kafla þess:

„Sértekjur heilbrigðisstofnana af gjaldinu [þ.e. vegna innlagnar á sjúkrahús] eru áætlaðar um 360 millj. kr. á næsta ári.“

Nú sakna ég þess, frú forseti, að hér er enginn forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, ekki frekar en þegar þetta mál var rætt hér fyrsta sinni. Hér er verið að tala um 6,9 milljarða kr. niðurskurð í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Hluta af því á að taka með nýjum sjúklingasköttum upp á 1.100 millj. kr. Aðgangseyrir inn á sjúkrahúsin á að vera 360 millj. kr. af því. Hitt eru tvenns konar hækkanir á gjöldum sjúklinga fyrir lyf. Og enn er enginn talsmaður, forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum sem treystir sér til að koma í þessa umræðu. Ég átel það, frú forseti. og ég áskil mér rétt til þess að kalla eftir því áfram við þessa umræðu að menn svari fyrir þær gjörðir sem hér eru.

Í áliti meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar er því mótmælt að hér sé brotið í blað, að hér sé um stefnubreytingu að ræða. Það hefði verið ánægjulegt að heyra rökstuðning fyrir því.

Það kom nefnilega fram á fundi hv. heilbrigðisnefndar að þær 360 millj. kr. sem þessi grein frumvarpsins fjallar um og segir bæði í greinargerð frá forsætisráðherra og í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að eigi að taka fyrir innlagnir á sjúkrahús, þegar menn fóru að reikna þetta mun þeim hafa brugðið nokkuð í brún vegna þess að á landinu öllu munu vera eitthvað ríflega 32.000 innlagnir á ári. Það er rætt um að ekki eigi að taka gjald vegna fæðinga eða mæðraskoðunar, það geta verið 4.000–6.000 af þessum innlögnum. Síðan á að vera lægra innlagnargjald fyrir aldraða, öryrkja og börn. Það er alveg ljóst að ef taka ætti þessar 360 millj. kr. af innlagnargjaldinu einu sér mundi það kosta hvert mannsbarn langt yfir 10.000 kr. Því er það, sem lesa má í nefndarálitum bæði meiri og minni hluta hv. heilbrigðisnefndar, að fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins upplýstu að ætlunin væri alls ekki að afla 360 millj. kr. með innlagnargjöldum á sjúkrahúsin, nei, það ættu bara að vera svona u.þ.b. 4.000 kr. á innlögn, svipað og nú er með bráðadeildar- og slysadeildargjöld, þannig að það ættu ekki að vera nema 100–110 millj. kr. sem ættu að fást inn fyrir innlögn á sjúkrahús.

Það fengust engin svör við því, frú forseti, hvernig ætti að innheimta þetta gjald og hversu mikið mundi tapast af því, hver tilkostnaðurinn við innheimtuna væri. Það fengust heldur ekki sundurgreindar upplýsingar og hafa ekki komið enn þá frá heilbrigðisráðuneytinu um fjölda innlagna eftir sjúkrahúsum á landinu. Það er vitað hverjar þær eru á Landspítalanum, ríflega 27.000 á ári, en það vantaði allar upplýsingar um innlagnir á öðrum stöðum í heilbrigðisumdæmum landsins.

Í minnihlutaáliti okkar heilbrigðisnefndarmanna, Þuríðar Backman og Eyglóar Harðardóttur auk mín, kemur fram að engar upplýsingar komu fram um það hvaðan þessar 250 millj. kr. sem er þá viðbótarhækkun á öðrum komugjöldum, öðrum sértekjum í heilbrigðisþjónustu, ættu að koma. Nú óska ég eftir því, frú forseti, að hv. formaður efnahags- og skattanefndar sé við þessa umræðu. Fyrst talsmenn ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum treysta sér ekki til að vera hér er lágmark að hv. formaður efnahags- og skattanefndar sem hér mælti fyrir nefndarálitinu sé til staðar því að ég hef hugsað mér að spyrja hann tveggja spurninga. Ég óska eftir að ráðstafanir verði gerðar til að hann komi hér í salinn.

Við teljum gjörsamlega óásættanlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra fái opinn tékka upp á 250 millj. kr. til að smyrja ofan á önnur innritunargjöld, komugjöld eða hvað það nú er sem þessi gjaldtaka öll er í heilbrigðisþjónustunni. Það hlýtur að hafa verið upplýst á fundum hv. efnahags- og skattanefndar hvernig þessar tekjur ættu að verða til.

Áður en ég skil við álit minni hluta heilbrigðisnefndar minni ég á það sem kom fram hjá fulltrúum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Öryrkjabandalagsins og Alþýðusambandsins, þessir þrír aðilar töldu allir víst að hér væri um eðlisbreytingu að ræða í heilbrigðisþjónustu okkar. Þeir vita að aldrei hefur verið tekið gjald fyrir það að liggja inni á sjúkrahúsi á Íslandi. Það hefur verið tryggt með stoð í 18. gr. laga um sjúkratryggingar sem voru samþykkt hér á Alþingi 16. september sl. Sléttum þremur mánuðum áður en þetta frumvarp kom fram um að breyta því segir, með leyfi forseta, í 18. gr. um sjúkrahúsþjónustu:

„Sjúkratryggingar taka til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum, sbr. þó 23. gr. [sem fjallar um læknisþjónustu erlendis, þ.e. sjúkratryggingar standa ekki undir kostnaði beint við læknisþjónustu erlendis] eða ákvæði sérlaga.“

Þetta ákvæði hefur verið í lögum á Íslandi og hefur tryggt það að menn hafa ekki þurft að kíkja í budduna áður en þeir leggjast inn á sjúkrahús. Hvers vegna skyldi það vera að sjúkrahúslega hefur verið undanþegin gjöldum allan þann tíma frá því að hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra Alþýðuflokks, Sighvatur Björgvinsson, fann upp sjúklingaskattana 1991? Þeir hafa náttúrlega margfaldast síðan og nú greiða sjúklingar u.þ.b. 18% af öllum kostnaði við heilbrigðisþjónustuna beint úr buddunni. Hvers vegna skyldi það vera að það hefur verið ókeypis inn á sjúkrahúsin? Það er jú vegna þess að þar er dýrasta þjónustan veitt. Þar þarf heilbrigðisþjónustan að vera tilbúin til að leggja í verulegan kostnað við lækningar og aðgerðir á mönnum eftir að þeir eru komnir inn. Það getur orðið þeim svo dýrt. Ef það á að vera úti á hinum frjálsa markaði eins og við þekkjum frá Bandaríkjunum hefur fólk einfaldlega ekki efni á því. Ég vil bara minna á að menn eru látnir borga ýmsar aðgerðir en innlögn á sjúkrahús hefur hingað til verið algerlega ókeypis.

Það er rangt sem hér var haldið fram við umræðuna — hér er hæstv. heilbrigðisráðherra kominn í salinn — það er rangt sem hæstv. heilbrigðisráðherra hélt hér fram í vikunni, og reyndar fleiri þingmenn, að það væri hægt að tala um samræmi á milli þess að greiða innlagnargjald á sjúkrahús og þess að greiða komugjald á bráðadeild og slysadeild. Því var haldið hér fram að menn greiddu 4.000 kr. komugjald á bráðadeildir og slysadeildir sjúkrahúsanna þegar þeir legðust inn. Svo er ekki, frú forseti, með því að í 2. lið 29. gr. um sjúkratryggingar segir að það sé heimilt að taka gjald, m.a. fyrir göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa, án þess að um innlögn á sjúkrahús sé að ræða. Það er alveg ljóst að komi menn á sjúkrahús og séu lagðir inn, hvort heldur þeir fara í gegnum bráðadeild eða slysadeild, er óheimilt að taka af þeim gjald fyrir bráðaþjónustuna eða slysaþjónustuna samkvæmt þessu ákvæði. Það var staðfest á fundi heilbrigðisnefndar af hálfu fulltrúa Landspítalans sem þar sátu að þetta væri óheimilt og ekki praktíserað.

Nú eru bæði hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. formaður efnahags- og skattanefndar gengnir í salinn og mig langar til að spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar hvaða upplýsingar nefndin hafi fengið um það hvernig fyrirhugað er að taka þær 250 millj. kr. sem út af standa ef innlagnargjald á spítalana á ekki að skila nema 110 millj. kr. en í frumvarpinu er talað um 360 millj. kr.

Á sama átt vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvernig hann hafi hugsað sér að útfæra þetta ákvæði sem er klárlega reiknað 360 millj. kr. í greinargerð og frumvarpinu.

Ég vil að lokum, frú forseti, segja að sjúklingar greiða nú um 20 milljarða kr. úr eigin vasa, sýnist mér, ríflega 18%. Hér er verið að tala um ríflega 2% aukningu að því er varðar læknisþjónustu en það er líka verið að tala um milli 700 og 800 millj. kr. hækkun sjúklingaskatta með hækkun á lyfjum í tveimur flokkum. Það er nöturlegt að hinn svokallaði jafnaðarmannaflokkur Íslands, Samfylkingin, skuli tala um að hér sé gætt jafnræðis með því að taka upp nýja sjúklingaskatta, búa til eitthvert nýtt gjald og selja inn á sjúkrastofnanirnar. Það er þeim flokki ekki samboðið.