136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði mig hvaða áhrif það hefði á afkomu bænda að taka þá ákvörðun að setja tiltekið þak á vísitölubætur á búvörusamningi. Það gefur augaleið hvert svarið er, auðvitað mun það hafa neikvæð áhrif á afkomu bænda.

Við verðum að hafa í huga að gripið er til þessara aðgerða við mjög sérstakar aðstæður sem þarf ekki að hafa mörg orð um. Það er gert með þeim hætti sem hér er lýst, með nákvæmlega sama hætti og verið er að gera á mörgum öðrum sviðum í fjárlagafrumvarpinu þar sem til að mynda er sett þak á bætur almannatrygginga og ýmissa annarra tilfærslna í fjárlagafrumvarpinu til að reyna að draga úr kostnaði við þessar sérstöku og erfiðu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir.

Hv. þingmaður spurði hvort þetta væri þá ekki fyrirmyndin að því hvernig ætti að fara með vísitölubundin fasteignalán. Við skulum hugsa þessa hugsun til enda, ef þetta væri tillaga hv. þingmanns skulum við velta því fyrir okkur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, þegar við tökum um það ákvörðun að skerða vísitöluhækkunina á búvörusamningunum og almannatryggingum og fleiri þáttum mun það auðvitað koma einhvers staðar niður, það er kostnaður sem kemur þá niður á notendunum í þessu tilviki. Nákvæmlega það sama ætti auðvitað við ef við tækjum þá ákvörðun, eins og hv. þingmaður var að velta fyrir sér, að skerða vísitöluhækkanir á lánum, þá standa t.d. á bak við þau lán innlán hjá almenningi sem eru vísitölubundin, sem yrði þá væntanlega að skerða sem hv. þingmaður væri þá örugglega að tala fyrir. Það væri líka um að ræða þá afleiðingu að skerða vísitölubætur á inneignum lífeyrissjóðanna sem kæmi þá fram í skertum möguleikum lífeyrissjóðanna til að greiða lífeyri í framtíðinni.

Það er ekkert ókeypis í þessum efnum og ef menn vilja hugsa þessa hugsun eins og hv. þingmaður er að gera verða menn að leyfa sér líka að hugsa hana til enda og þá velta fyrir sér hver borgar þann kostnað að lokum. Ég efast um að þetta væri skynsamleg leið enda hefur niðurstaðan verið sú (Forseti hringir.) að fara aðrar leiðir í því sambandi.