136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki heyrt enn þá tillögur frá hæstv. ríkisstjórn um hvernig eigi að taka á verðbótakúfnum sem hellist yfir fasteignaeigendur á næsta ári. Það sem ég spurði hér um var ósköp einfalt: Er ekki rétt að í stað þess að búa til misgengi með þessum hætti, að miða við verðlag 5,7% á næsta ári í launum til bænda en 14,2% í húseignum eða skuldum þeirra, að jafna þetta og horfa bara til þess (Gripið fram í.) að á næsta ári séu 5,7% verðbætur hámark en það er sú spá sem upphaflegt fjárlagafrumvarp miðaði við og hæstv. ríkisstjórn hefur notað hér sem viðmiðun.

Hæstv. ráðherra spurði hvað yrði um þá sem hafa veitt lánin, lánveitendurna, hvort ætti ekki að skerða þeirra hlut? Jú, af sjálfu leiðir. Hugsunin er sem sagt sú, og það hafa menn úti í samfélaginu alls staðar tekið undir, að það sé ekkert endilega eðlilegt að fjármagnseigendur, hverju nafni sem nefnast — af því að hæstv. ráðherra nefndi lífeyrissjóðina — græði sérstaklega á því sem fer umfram þessi 5,7% eða einhverja aðra tölu. Við vonumst til þess að verðbólgan fari niður á næsta ári og þetta er spurning um þennan kúf sem mun leggjast á verðbætur og á húsnæðislán almennings í landinu og hanga þar næstu áratugi.

Það er þess vegna mjög ánægjulegt, frú forseti, að ríkisstjórnin hefur hér fundið leið sem ekki er talin brjóta í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.