136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fólk sem hv. þingmaður kallar fjármagnseigendur er líka kallað sparifjáreigendur, það er almenningur í landinu, það er unga fólkið, það er gamla fólkið, það er allt það fólk sem hefur lagt til hliðar fjármuni og auðvitað staðið undir þeim útlánum sem bankakerfið hefur veitt bæði atvinnulífinu og heimilunum. Nákvæmlega sama á við um lífeyrissjóðina sem eru þá væntanlega fjármagnseigendurnir í landinu.

Það er alveg ljóst mál að í þeirri verðbólgu sem við höfum núna leiddu 5,7% verðbætur til þess að innlánin mundu skerðast og hefðu þess vegna áhrif á bæði útlánagetu bankanna og um leið möguleika lífeyrissjóðanna til að standa við skuldbindingar sínar.

Gott og vel, ef það er niðurstaða hv. þingmanns að þá verði það að vera svo er það sjónarmið sem hún hefur sett fram. Mér fannst raunar koma ágætlega fram í þessu andsvari áðan sá vilji hennar að það verði gert með þeim hætti að vísitölubinding yrði miðuð við 5,7%. Þá verða menn að horfast í augu við það hvaða áhrif það hefur t.d. á möguleika lífeyrissjóðanna til að standa við skuldbindingar sínar í framtíðinni gagnvart því fólki sem hefur reitt sig á afkomu af lífeyrissjóðunum.

Ég undirstrika að það sem verið er að gera varðandi búvörusamningana er verið að gera með sama hætti í öðrum tilfærslum og greiðslum af sams konar eða svipuðum toga, eins og t.d. í almannatryggingunum, þar er farið með þetta með sama hætti. Það er ekki verið að ráðast á sjálfan grundvöll búvörusamninganna, alls ekki. Hér er verið að setja þak á þær greiðslur eða hækkun á þessum greiðslum sem verður á milli ára og það er gert ráð fyrir því að þær tölur sem stóðu í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í byrjun október sl. muni standa.

Auðvitað er það (Gripið fram í.) þannig að skerðingin gagnvart bændunum mun síðan ráðast af því hver verðbólguþróunin verður. Það er stóra málið og verkefni okkar núna, þ.e. að reyna að ná niður verðbólgunni þannig að þessi áhrif verði sem minnst. Út á það gengur sú efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem hefur verið kynnt og hluti af þeirri efnahagsáætlun er að sýna aðhald í ríkisbúskapnum.

Ég tók eftir því að þegar vinstri grænir gerðu grein fyrir atkvæðum sínum við 2. umr. fjárlaga (Forseti hringir.) samþykktu þeir eina niðurskurðartillögu upp á 12 millj. kr. upp í 200 milljarða halla.