136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það tjóir ekki fyrir ráðherrann að benda á aðra og segja að þeir eigi að koma með tillögur. Fyrst skal hæstv. ráðherra og ríkisstjórn koma hér með forsendurnar upp á borðið og þá vísa ég til yfirlýsinga Alþýðusambands Íslands þar um. Það þýðir ekkert að kalla eftir tillögum frá öðrum meðan menn eru með allt lok, lok og læs og taka bara (Sjútv.- og landbrh.: Tillögurnar eru í fjárlagafrumvarpinu.) beint við fyrirskipunum. Já, þær koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þær eru í fjárlagafrumvarpinu.

Frú forseti. Ég lýsti ánægju með það að ríkisstjórnin hefði fundið hér leið til að skera verðbótakúfinn af sem menn vita að muni verða á næsta ári og fundið leið sem ekki stríðir gegn eignarréttarákvæðum 72. gr. stjórnarskrár. Ég tel eins og ráðherrann mjög mikilvægt að verðbólgan náist niður. Það tjóir ekki að horfa bara til útlánagetu bankanna eða þess hvað þeir sem eiga fjármagnið í bönkunum, sparifjáreigendur og lífeyrissjóðir, eiga að fá fyrir útlán fjárins heldur þarf líka að horfa til greiðslugetu almennings og það þarf að horfa til greiðslugetu húseigenda sem fá þennan verðbólgukúf beint í andlitið, samkvæmt því sem Seðlabankinn nú telur 14,2% að meðaltali á næsta ári.

Ríkisstjórnin hefur fundið leið til þess að gera þetta með öðrum hætti og við teljum að þarna sé góð leið sem við munum grípa og höfum reyndar gripið. Það er ekki verið að ráðast á grundvöll fasteignaveðlána fremur en á grundvöll búvörusamninga eins og hæstv. ráðherra sagði. Ég er alveg sannfærð um að þessi hugmynd og þessi tillaga á eftir að sýna sig að vera góð og gild.