136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var eðlismunur. Ný tækni í uppskurðum og öðru slíku gerir það að verkum að það er hægt að afgreiða mjög mikið af læknisverkum með svokölluðum ferliverkum. Menn koma á spítalann og fara svo heim að því loknu og taka ekki neitt rúm á sjúkrahúsi, en þeir eru látnir borga. Hinir sem fá meiri þjónustu og leggjast inn og fá mat og allt slíkt og húsnæði borga ekki neitt. Þetta hef ég aldrei skilið, frú forseti, aldrei nokkurn tímann.

Varðandi greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu er hún afskaplega flókin í dag og því miður borga margir umtalsverðar fjárhæðir og því miður þeir sem eru veikastir og þeir sem þurfa kannski mest á tryggingu að halda. Þeirri nefnd sem ég stýri, sem tafðist reyndar sennilega um tvo mánuði, er ætlað að líta á allt heilbrigðiskerfið frá sjónarhorni sjúklingsins og passa að enginn greiði umfram ákveðið hámark á ákveðnum tíma. Það er hlutverk þeirrar nefndar að gæta þess að þeir sem eru mikið veikir — oft eru það öryrkjar og fatlaðir — borgi ekki mikið. Þetta er markmiðið og því verður vonandi náð í mars, apríl.

Greiðsluþátttaka almennings á Íslandi er lægri en víðast hvar annars staðar, líka á Norðurlöndunum. Hún er 17% að meðaltali yfir allt kerfið og fer lækkandi vegna þess að kostnaðurinn vex. Það er markmiðið í þessari nefnd að viðhalda þeirri kostnaðarþátttöku, breyta henni ekki, en dreifa kostnaðinum réttlátar þannig að þeir sem eru sjaldan veikir og lenda lítið í kostnaði borgi meira en að þeir sem eru lengi veikir og mikið veikir og stöðugt veikir, jafnvel alla ævina, borgi minna.