136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst hv. þm. Jón Magnússon vera úti á þekju þegar hann gagnrýndi Vinstri hreyfinguna – grænt framboð sérstaklega fyrir óábyrgan málflutning í sambandi við ríkisfjármálin og efnahagsmálin og sagði að hér væru miklar tillögur upp á útgjöld og engar tillögur um sparnað eða tekjur. Ég segi þingmanninn úti á þekju þegar hann heldur þessu fram.

Síðan kemur hann og telur upp alls konar hluti, t.d. þrepaskiptan tekjuskatt, sem hefur verið baráttumál og þingmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um langt skeið. Veit þingmaðurinn það ekki, er honum það ekki ljóst? Af hverju segir hann þá eitthvað allt annað?

Ríkisstjórnin leggur hér fram og segir að hallinn á fjárlögum nú verði 160–170 milljarðar í staðinn fyrir kannski 200 eða 220 sem hann hefði stefnt í. Hlaupið í málflutningi ríkisstjórnarinnar sjálfrar eru 10 milljarðar og ég fullyrði að þær tillögur sem við höfum verið með, annars vegar varðandi útgjöld og hins vegar varðandi tekjur, eru innan þeirra skekkjumarka sem ríkisstjórnin setur sér sjálf. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann þegar hann kallar þetta óábyrgan málflutning og kemur hér og segir svo sjálfur: Það er óábyrgt að reka ríkissjóð með halla, — hvar eru þá tillögur hv. þingmanns sjálfs um niðurskurðinn, vegna þess að hann segir að það eigi ekki að skila fjárlögunum með halla? Hvar eru hans eigin tillögur um niðurskurð upp á 160–170 milljarða? Getum við fengið að hlusta á þær?